Afmæli mömmu í dag

Konur í afmæliDagurinn í dag er sérstakur því þetta er afmælisdagurinn hennar mömmu. Hún er 84ra ára í dag og auðvitað var þetta dagur með fullu borði af kökum, þarna var líka karamellukaka eins og í gamla daga. Það var alveg sérstakt í afmælum á Austurveginum þegar búnar voru til afmæliskökurnar. Það var alltaf rjómakaka með ávöxtum, jólakaka með rúsínum, oft  brúnkaka með kremi og svo var líka karamellukaka. Fyrst var karamellukakan jólakaka eða sandkaka í hringformi en stundum var hún  ílöng.  Það sem var alltaf sérstakt við þessa köku var karamellan, það var hún sem sló í gegn. ViðSigga og Bogga sátum um það strákarnir þegar mamma gerði karamelluna og biðum eftir að geta potað einhverju ofan í pottinn til að stela smakki. Vorum auðvitað reknir frá en sátum um pottinn eftir að karamellan var komin á kökuna. Þá var potturinn skafinn og kjamsað á karamellunni.  Þegar svo kakan var komin á borðið og afmælið byrjaði þá fékk maður sér auðvitað karamelluköku, þokkalega sneið,  og passaði upp á að ná í karamelluna sem var inni í hringnum. Það var gert með sérstakri aðferð og best var aðvera fyrstur að fá sér. Þá brá maður hnífnum inn í skarðið og undir karamelluna í hringnum  og dró hann að sér og þá fylgdi karamellan með, mmmmm hvað þetta var gott með mjólk.

 Í öllum afmælum hér á árum áður voru systurnar frá Hurðarbaki mættar og það var glatt á hjalla. Karlarnir þeirra komu oftast líka og þá var mikil umræða þegar karlarnir  ræddu málin og höfðu þá oft hátt.  Núna var líka glatt á hjalla og talsverður hávaði því það er ennþá þannig að við þurfum einhvern veginn öll að tala í einu og þá myndast þessi líka skemmtilegi kliður.  Núna var góður kliður og gaman að vera saman þessa stund. Kári gekk um beina, nýukominn í vinnuleyfi frá Edinborg þar sem hann dvelur við lærdóm og rannsóknir. Kristjana og Anton dvelja þarna líka og Kristjana var með í dag og við fengum góða fréttapunkta frá Skotlandi. Kári sagði okkur frá Skotapilsinu sem hann fékk í jólagjöf og við gældum við þá hugsun að fara til Skotlands fyrir sumarið og svipast um. 

Bogga á Flúðum var í afmælinu og það var virðuleiki yfir þeim systrunum þar sem þær sátu og virtu fyrir sér Siggubörn og Bogga sagði: "Mikið er gaman að sjá ukkur."  Þetta var sannarlega skemmtileg dagstund um kaffileytið. Allir komu með eitthvað til að setja á borðið við hliðina á pönnukökunum hennar mömmu.  Framundan er svo Jónsarablótið núna á föstudaginn, þá verður líka gaman að takast á við blómaþemað sem verður í hávegum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nammi namm, karamellukaka. Oh hvað ég væri til í væna sneið núna. Verst að hún færi frekar illa í pósti yfir hafið.  Bestu kveðjur til allra í familíunni, ég gæfi mikið fyrir að vera á jónsblótinu á föstudaginn.

Bestu kveðjur frá USA,  Guðrún Erla

Guðrún Erla (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 14:58

2 identicon

Tek undir með Guðrúnu Erlu....mmmmmm karamellukakan stendur alltaf uppúr.  Hún er hluti af afmælisboðum hjá ömmu, enda eini staðurinn þar sem maður fær slíkt góðgæti.  Fæ líka vatn í munninn við tilhugsunina um íslenskar pönnukökur

Góða skemmtun á Jónsblóti.  Hef grun um að blómálfarnir muni hafa hátt og gaman

Sigga Rós (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband