Beðið eftir útboði Suðurlandsvegar í einkaframkvæmd

Nú bíður allt áhugafólk um tvöföldun og lýsingu Suðurlandsvegar í eftirvæntingu eftir því að samgönguráðherra bjóði út framkvæmdina í einkaframkvæmd, bæði hönnun og lagningu vegarins.  Það er meginatriði að þetta útboð verði að veruleika og á vissan hátt dálítið undarlegt hvað þetta gengur hægt fyrir sig. Það er alveg eins og í kerfinu séu einhverjir sem vilja ekki að þessi góða framkvæmd fari af stað.  Menn mega ekki gleyma öllum undirskriftunum sem liggja fyrir frá almenningi varðandi þetta mál.

Menn munu leysa úr því hvar vegurinn muni liggja í Ölfusinu eins og nú er verið að ræða um. Ég óttast ekki að það tefji málið.  Best er að framkvæmdin fari úr umsjón Vegagerðarinnar og til einkaaðila, bæði hönnun og lagning vegarins.  Áherslur Sjóvár í þessum efnum eru mjög góðar og nauðsynlegt að þær gangi eftir, vegurinn verði fjórar akreinar með ljósastaurum í miðjunni sem eru varðir með vegriði beggja vegna. Kostnaður við lagningu vegarins verði síðan greiddur með svonefndum skuggagjöldum.   Svo þarf umhverfisráðherra að heimila flýtingu á afgreiðslu umhverfismats vegna vegarins svo það kerfisatriði tefji ekki þetta brýna öryggis- og samgöngumál.

Ég trúi því að ráðherrarnir Árni Matthíesen, Björgvin Sigurðsson og Kristján Möller komi málinu á koppinn á næstu vikum með góðum stuðningi þingmanna hvar í flokki sem þeir standa.  Breikkun og lýsing Suðurlandsvegar verður gríðarstórt framfaraskref í atvinnu- og samgöngumálum okkar Sunnlendinga og höfuðborgarbúa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband