Mikið samráð boðað um miðbæjarskipulag

Við hjónin skelltum okkur á áhugaverðan fund bæjarstjórnar í Hótelinu í kvöld þar sem verðlaunatillagan í samkeppni um miðbæjarskipulag var kynnt. Það var góð mæting á fundinum og þar komu fram ný viðhorf gagnvart kynningu á skipulagi en áður hefur verið. Mynd af miðbæjartillögu

Bæjarstjórinn sagði þetta fyrsta fundinn til að kynna málefnið en síðan yrðu fleiri fundir þar sem hagsmunaaðilar í miðbænum yrðu kallaðir til til skrafs og ráðagerða. Einnig yrði þeim boðið til að vera með í rýnihóp um skipulagið. Síðan væri fyrirhugað að fikra sig fram til góðrar niðurstöðu.

Fundurinn var góður, þar komu fram ýmis viðhorf og ábendingar einnig var á honum farið gróflega yfir samning bæjarins við Miðjumenn en hann lá að nokkru til grundavallar í forsendnalýsingunni. Kannski hefði verið best fyrir bæjarstjórnina að kaupa allar lóðir í miðbænumog láta síðan skipuleggja miðbæinn með það fyrir augum að selja síðan byggingaréttinn aftur.

Verðlaunatillagan er gölluð að ýmsu leyti en það eru góðar glefsur í henni og kannski best hvað hún er opin.  Bæjarstjóri sagði það hafa mikla kosti að ekki væri allt njörfað niður.  Menn gagnrýndu höfundana til dæmis fyrir að ætla sér að búta Tryggvaskála niður og flytja hann fram á árbakkann þar sem mesti flóðastrengurinn væri þegar áin flæddi og þeir viðurkenndu að þetta væri dálítið út í loftið.

Við sem erum í Mjólkurbúshverfinu og stríðum við einstrengingslega bæjarstjórn myndum fagna því ef svona fundur yrði haldinn um skipulagið við Austurveg 51 - 59. En því er ekki að heilsa. Menn úr bæjarstjórn urðu dálítið kindarlegir þegar ég spurði um það hvort ekki yrði haldinn svona upplýsandi fundur í Mjólkurbúshverfinu.  Það er nefnilega nauðsynlegt að gæta þess að gefa íbúunum tækifæri til að kynnast breytingum á þeirra næsta nágrenni og reyndar bundið í lög. Kannski verður svona fundur haldinn þar sem höfundar  tillögunnar við Av 51 - 59 kynna kosti tillögu sinnar og við íbúarnir fáum að spyrja þá og líka bæjarstjórnarmenn um þeirra álit, forsendur og samninga, opinbera og leynilega.  Hver veit - kannski er ráð að leita eftir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband