Dagdvöl á Selfossi fyrir alzheimersjúka í augsýn

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum 29. mars að starfa með Félagi aðstandenda alzheimersjúkra, FAAS, að því verkefni að koma á fót dagdvöl á Selfossi fyrir 15 einstaklinga.  FAAS kynnti slíka dagdvöl á fræðslufundi Vinafélags heimilisfólks Ljósheima í nóvember á síðasta ári og hefur síðan verið í góðu sambandi við bæjarstjórnina varðandi þetta mál. Félagið starfrækir dagdvöl á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, Fríðuhús í Reykjavík og Drafnarhús í Hafnarfirði. 

Þessi samþykkt bæjarráðs þýðir að gera má ráð fyrir að dagdvöl fyrir alzheimersjúka taki til starfa á Selfossi eftir ca, eitt ár.  Sveitarfélagið mun útvega húsnæði en FAAS annast rekstur og fá til þess daggjöld frá ríkinu.  Á fræðslufundinum í nóvember kynntu forsvarsmenn FAAS að góð orð hefðu verið gefin af yfirvöldum um daggjöld til reksturs dagdvalar á landsbyggðinni.

Þessi samþykkt bæjarráðs er mikið ánægjuefni fyrir þá fjölmörgu sem þurfa á þessari brýnu þjónustu að halda. Bæjarráði og bæjarstjórn er óskað til hamingju með eftirfarandi samþykkt bæjarráðs. 

"Meirihluti bæjarráðs samþykkir að hafinn verði formlegur undirbúningur að samstarfi milli sveitarfélagsins og FAAS um að koma á fót dagdvöl fyrir alzheimersjúklinga í Sveitarfélaginu Árborg. Bæjarstjóra er falið að rita bréf til heilbrigðisráðuneytis þar sem fram komi að Árborg muni leggja til húsnæði fyrir starfsemina. Bæjarstjóra, ásamt framkvæmdastjórum sviða er falið að vinna málinu framgang í samráði við bæjarráð."  Minnihluti bæjarstjórnar er meirihlutanum samstiga í málinu og tók undir samþykktina enda áður vakið máls á málsefninu og sýnt því góðan áhuga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband