Furðuleg framganga í Mjólkurbúshverfinu

Esther skrifar:

Esther Alltaf er nú skemmtilegra að hrósa, en að gagnrýna. Því miður er ekki hægt að hrósa meirihluta bæjarfulltrúa í framkomu sinni við íbúa Mjólkurbúshverfisins vegna fyrirhugaðrar bygginga 2ja stórhýsa að Austurvegi 51-59.   Það er með ólíkindum klaufaháttur meirihlutans gagnvart skipulagsmálum. Ekki getur það kallast góð stjórnsýsla, að setja málin í þann farveg að bæjarfélagið fái á sig stórar skaðabótakröfur frá íbúunum. Það er furðulegt að ekki hafi komið fram fleiri hugmyndir að byggingum við Austurveg 51-59, en fyrirliggjandi teikning sýnir, sem að mínu mati eru mjög ósmekklegar byggingar og væri mun eðlilegra að þarna risu 2ja og 3ja hæða hús, sem félli vel að íbúðahverfi Mjólkurbúshverfisins.

Set hér inn grein sem ég fékk birta í Dagskránni um þetta málefni.

Hvaða öfl ráða för? 

Á föstudaginn 20. apríl sl. áttu íbúðar Mjólkurbúshverfisins fund með bæjarstjóra Árborgar, að beiðni íbúanna, þar sem málefni byggingarinnar að Austurvegi 51-59 voru rædd.Íbúar hverfisins hafa þegar gert athugasemdir við þessa byggingu, sem að okkar mati skaðar hverfið á margan hátt.   Á fundinum með bæjarstjóra kom fram að búið væri að lækka bygginguna um eina hæð úr 17 m. í 14 m., en að öðru leyti er byggingin óbreytt. Þessi breyting væri til þess að koma til móts við íbúanna, en að okkar mati breytir þetta ekki miklu. 

Á fundinum lágu ekki fyrir teikningar af húsinu, einungis sýnd teikning af skuggavarpi með tveimur dagsetningum.  Þarna er um að ræða tvö 5 hæða L laga hús, forljót,  sem staðsett eru innarlega í lóðinni, þannig að bílaplan er í suðri. Bílarnir fá sólina, en íbúarnir skuggann.  Að mínu mati er ekkert rými fyrir þessar risavöxnu byggingar á þessum stað og það er furðulegt að fulltrúar meirihlutans hafi ekki farið fram á aðrar tillögur að byggingunni – lækkun um eina hæð breytir ekki miklu fyrir íbúanna.  Þegar þessi hugmynd kom fyrst fram um að byggja fjölbýlishús, sem tengst gæti Grænumörkinni var einungis talað um 3 hæðir, en eftir að aðrir eigendur höfðu eignast þarna byggingaréttinn var ekkert mál að samþykkja 6 hæða byggingar.

Það er einnig furðulegt, hvernig afstaða vinstri grænna hefur breyst, en fyrir kosningarnar sl. vor voru þeir alfarið á móti svona hárri byggingu og voru sammála íbúum hverfisins, að ekkert rými væri fyrir slíka byggingu.  Auðvelt virðist vera að selja sínar skoðanir – svo mikið er kappið að komast til valda í bæjarfélaginu okkar. Og hvað er með íbúalýðræði Samfylkingarinnar? Miðað við framkvæmdina við Mjólkurbúshverfið er ekkert mark takandi á því lýðræðistali.  Greinilegt er einnig, að framsóknarmenn leggja ofurkapp á, að þessi hugmynd verði að veruleika. Bæjarfulltrúar eiga að virða rétt annarra íbúa og ekki er hægt að valta yfir heimili fólks og friðhelgi, eins og gert er núna með þessari samþykkt, að byggja 5 hæða hús með þessu formi.

Ófaglega hefur verið staðað að þessu máli í alla staði, samþykktin kom fyrst fram með ógnar hraða fyrir kosningarnar sl. vor án allrar kynningar fyrir íbúa hverfisins, sem ekki hafa fengið fund með fulltrúum eða bæjarstjóra, nema að beiðni íbúanna. Gömul og gróin hverfi ætti að vera prýði og stolt hvers bæjarfélags og ég harma það, ef það er skoðun bæjarfulltrúa meirihlutans, að aðal áhersla verði lögð á blokkarbyggð, hvar sem hægt er að koma því við. Það er bara gott mál, að einhverjir geti nú grætt á byggingarmagni lóða, sem aðilar eiga, en ekki á kostnað annarra.  Bæjarfulltrúar verða að hugsa um heildina og ekki gleyma sér í ákafanum, sem oft skapast fyrir kosningar.

Í Mjólkurbúshverfinu er gott að búa og íbúunum hefur ávallt liðið þar vel, en í rúmt ár hefur ríkt mikil óvissa og vanlíðan meðal fólksins. Lóðarhafi hefur þegar keypt upp öll húsin í Þórsmörkinni, nema 4 og nokkur hús hafa einnig verið keypt í Heiðmörkinni. Hvað skyldi vaka fyrir lóðarhafa í kjölfar þessara kaupa og þarna er sýnilegt, að einhverjir fjársterkir aðilar eru þarna í spilinu.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar sl. föstudag var tillögu fulltrúa sjálfstæðismanna hafnað, um að skipuleggja hverfið í heild sinni. Skipulagsstofnun og skipulagsfræðingur, sem íbúarnir leituðu til hafa sett fram sömu athugasemdir og íbúarnir hafa gert, en ekki er meira tillit tekið til þeirra athugasemda, nema þessi lækkun hússins um 3 metra. Á þessu bygginarsvæði liggur landið einnig hærra og ætti þar af leiðandi að taka tillit til þess. Ég hvet bæjarfulltrúa meirihlutans, að endurskoða sína afstöðu og að gerð verði breyting á þessum tillögum – ef þessi tillaga verður að veruleika er hverfinu algjörlega rústað. Forðumst svona skipulagsslys og höldum áfram að gera bæinn okkar vinalegan og góðan til búsetu fyrir alla íbúa.   

Esther Óskarsdóttir   íbúi í Mjólkurbúshverfinu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott hjá þér Esther, það gustar um þá sem standa í stafni og halda uppi baráttunni fyrir aðra. Það getur líka reynt á vináttubönd manna þegar tekist er á um slík ágreiningsefni. Þá kemur í ljós hve málefnalegir menn geta verið og hve sönn vináttan er. Stattu þig í baráttunni en fórnaðu ekki andanum í eldi orrustunnar, lífið heldur áfram. Þú átt okkar stuðning.

Kveðja, Kári

Kári (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband