Dapurlegur bæjarstjórnarfundur í Árborg 9. maí

Íbúar í Mjólkurbúshverfinu mættu á fund bæjarstjórnar Árborgar í gær til þess að fylgja eftir áherslum sínum varðandi skipulag Mjólkurbúshverfisins.   Minnihluti bæjarstjórnar óskaði eftir því að íbúum væri gefið tækifæri  til að tjá sig á fundinum en því var hafnað. Þegar kom að afgreiðslu skipulagstillögunnar las bæjarstjóri upp eina málsgrein þar sem hún sagði  að meirihlutinn hefði komið til móts við athugasemdir með því að lækka húsin um eina hæð.  Enginn annar bæjarfulltrúiBæjarstjórnarfundur 9. maí 07 tók til máls utan einn sem sagði fátt.  Eftir því var tekið að fulltrúi Vinstri grænna þagði þunnu hljóði á fundinum eins og aðrir bæjarfulltrúar meirihlutans. Það var greinilegt að þessi framganga var skipulögð en bæjarfulltrúar meirihlutans komu til fundarins frá skrifstofu bæjarstjóra. Engin upplýsandi umræða fór fram af hálfu meirihlutans til að gera grein fyrir stefnu hans í málinu. Minnihluti bæjarstjórnar kom vel fram í málinu og lýsti eindregnum vilja til þess að hverfið yrði skipulagt í heild sinni og fyrirhugaðar byggingar Fossafls felldar að íbúðabyggðinni og færðar sunnar á lóðunum við Austurveginn.

Eftir þennan bæjarstjórnarfund er ljós stefna meirihlutans varðandi Austurveg 51 - 59 en ekkert er vitað um hvernig  hverfið er hugsað að öðru leyti. Eigandi lóðanna hefur nýtt sér tómarúmið sem ríkt hefur undanfarið ár og keypt upp nokkrar lóðir í hverfinu. Þykir það renna stoðum undir þá fullyrðingu að meirihlutinn og lóðarhafinn stefni að því að breyta skipulagi hverfisins síðar.   Á bæjarstjórnarfundinum kom fram að fólk hefði séð uppdrátt af hverfinu þar sem einbýlishúsin hefðu vikið fyrir fjölbýlishúsum og garður væri í miðju hverfisins. 

Næstu skref í málinu eru þau að bæjarstjóri mun senda skipulagstillöguna til Skipulagsstofnunar  til umsagnar áður en hún verður auglýst í B deild Stjórnartíðinda.  Íbúar hafa þegar sent sínar athugasemdir til stofnunarinnar.   Vænta má þess aðstofnunin geri athugasemdir við tillöguna og afgreiðslu hennar en hún fór aldrei í grenndarkynningu né hafði bæjarstjórnin frumkvæði að því að kynna hana fyrir íbúum. Beið er svars frá Skipulagsstofnun.

Ef marka má nýleg orð bæjarstjóra á fundi (sem íbúar báðu um) þess efnis að framkvæmdir myndu hefjast í sumar, má búast við því að bæjarstjórnin taki ekki tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar og sendi tillöguna strax í auglýsingu. Næsta skref eftir það er að gefa út framkvæmdaleyfi.  Eftir þá gjörð er bæjarsjóður klárlega skaðabótaskyldur ef stöðva þarf framkvæmdir. 

Verði af þessu þá munu íbúar kæra til kærunefndar skipulagsmála og fylgja málinu eftir til  úrskurðarnefndar skipulagsmála. Það er því alveg ljóst að skipulagsboxið í Mjólkurbúshverfinu er rétt að byrja. Segja má að meirihluti bæjarstjórnar og Fossafl ehf hafi unnið fyrstu lotu með tæknilegu níðhöggi neðan beltisstaðar þar sem aflsmunar var neytt.

Málinu er alls ekki lokið.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband