28.5.2007 | 05:30
Gönguferð í Stanley Park og heimsókn hjá góðu fólki
Deginum eyddum við í gönguferð um Stanley Park sem er býsna stór garður skammt frá miðborg Vancouver. Þetta er vinsæll garður um helgar og oft eru þar heilmiklar uppákomur. Þarna kemur fólk með börnin og eyðir deginum saman. Hægt er að ganga með ströndinni og er þar á ferð hjólandi og gangandi fólk.
Garðurinn er kyrrlátur og auðvelt er að virða fyrir sér útsýnið yfir borgina. Lions Gate Bridge er stór hengibrú sem tengir borgarhluta saman og var reist af eiganda garðsins á sínum tíma. Þarna gengum við í hátt í þrjá klukkutíma með smá ísstoppi. Garðurinn fór illa í miklum stormi í vetur og sér verulega á honum eftir það.
Í kvöld var okkur síðan boðið til fjölskyldunnar sem Sigga passaði fyrir, Tom og Köru sem eiga tvö börn, Skye 3ja ára og Jonah 7 ára. Þar áttum við góða kvöldstund með þeim og fræddumst um aðstæður fólks í stórborginni.
Þau búa í kyrrlátri götu, í gömlu húsi sem þau leigja. Hann er kennari í High School og hún vinnur að doktorsritgerð í menntunarfræðum, yfirvegað fólk sem hugsar vel um aðstæður fjölskyldunnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.