27.10.2007 | 15:17
Kálfurinn Babú kom í heiminn
Kálfurinn Babú, svartur og myndarlegur holdanautskálfur, kom í heiminn í fjósinu í Geirakoti nokkrum mínútum áður en slökkviliðsstjórar Íslands komu þangað í heimsókn á ferð sinni um Suðurland. Hjónunum Ólafi Kristjánssyni bónda og Maríu Hauksdóttur húsfreyju í Geirakoti þótti tilvalið að skíra kálfinn strax til heiðurs slökkviliðsstjórunum. Þeir Björn Karlsson brunamálastjóri og Kristján Einarsson slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnesinga fögnuðu kálfinum innilega í fóðurganginum í fjósinu í Geirakoti. Ekki lögðu þeir þó í að kyssa blautan kálfinn til að feta í fótspor Guðna Ágústssonar fyrrverandi landbúnaðarráðherra þegar hann kyssti Skrautu á Stóra Ármóti og ég smellti mynd af þeim viðburði.
Það var annars glatt á hjalla í Geirakoti þarna um hádegið en þau hjónin hafa útbúið góða forstofu að fjósinu í tveimur aflögðum súrheysturnum. Þar eru málaðar landbúnaðarmyndir á veggjum og Þórður Þorsteinsson rafvirki frá Selfossi sat þar á stól og lék á harmonikku. Svo vel fórst honum þetta að viðstaddir fengu fiðring í fætur og hófu að dansa. Síðan var sungið og trallað um stund, tekin mynd fyrir framan turnana tvo sem fengu auðvitað strax nafnið: "Twin Towers of Geirakot.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.