16.2.2007 | 00:07
Valentínus var í gær
Þær voru ánægðar með Valentínusana á Selfossi stelpurnar í Sjafnarblómum þegar karlpeningurinn streymdi þangað í gær til að kaupa smáræði að gefa konunni og fá koss fyrir. Þær sögðu að það væru ótrúlega margir Valentínusar á Selfossi og svo mætti reikna með því að þeir kæmu aftur á konudaginn.
Góðvildin er mönnunum eins og sólin blómunum !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2007 | 20:57
Afmæli mömmu í dag
Dagurinn í dag er sérstakur því þetta er afmælisdagurinn hennar mömmu. Hún er 84ra ára í dag og auðvitað var þetta dagur með fullu borði af kökum, þarna var líka karamellukaka eins og í gamla daga. Það var alveg sérstakt í afmælum á Austurveginum þegar búnar voru til afmæliskökurnar. Það var alltaf rjómakaka með ávöxtum, jólakaka með rúsínum, oft brúnkaka með kremi og svo var líka karamellukaka. Fyrst var karamellukakan jólakaka eða sandkaka í hringformi en stundum var hún ílöng. Það sem var alltaf sérstakt við þessa köku var karamellan, það var hún sem sló í gegn. Við sátum um það strákarnir þegar mamma gerði karamelluna og biðum eftir að geta potað einhverju ofan í pottinn til að stela smakki. Vorum auðvitað reknir frá en sátum um pottinn eftir að karamellan var komin á kökuna. Þá var potturinn skafinn og kjamsað á karamellunni. Þegar svo kakan var komin á borðið og afmælið byrjaði þá fékk maður sér auðvitað karamelluköku, þokkalega sneið, og passaði upp á að ná í karamelluna sem var inni í hringnum. Það var gert með sérstakri aðferð og best var aðvera fyrstur að fá sér. Þá brá maður hnífnum inn í skarðið og undir karamelluna í hringnum og dró hann að sér og þá fylgdi karamellan með, mmmmm hvað þetta var gott með mjólk.
Í öllum afmælum hér á árum áður voru systurnar frá Hurðarbaki mættar og það var glatt á hjalla. Karlarnir þeirra komu oftast líka og þá var mikil umræða þegar karlarnir ræddu málin og höfðu þá oft hátt. Núna var líka glatt á hjalla og talsverður hávaði því það er ennþá þannig að við þurfum einhvern veginn öll að tala í einu og þá myndast þessi líka skemmtilegi kliður. Núna var góður kliður og gaman að vera saman þessa stund. Kári gekk um beina, nýukominn í vinnuleyfi frá Edinborg þar sem hann dvelur við lærdóm og rannsóknir. Kristjana og Anton dvelja þarna líka og Kristjana var með í dag og við fengum góða fréttapunkta frá Skotlandi. Kári sagði okkur frá Skotapilsinu sem hann fékk í jólagjöf og við gældum við þá hugsun að fara til Skotlands fyrir sumarið og svipast um.
Bogga á Flúðum var í afmælinu og það var virðuleiki yfir þeim systrunum þar sem þær sátu og virtu fyrir sér Siggubörn og Bogga sagði: "Mikið er gaman að sjá ukkur." Þetta var sannarlega skemmtileg dagstund um kaffileytið. Allir komu með eitthvað til að setja á borðið við hliðina á pönnukökunum hennar mömmu. Framundan er svo Jónsarablótið núna á föstudaginn, þá verður líka gaman að takast á við blómaþemað sem verður í hávegum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2007 | 19:50
Sterkur fundur í Árnesi
Mótmælafundurinn sem haldinn var í Árnesi í gær var sterkur að því leyti að þar komu fram sterksjónarmið gegn því að virkja í neðri hluta Þjórsár. Hann var líka áhugaverður fyrir það að hann mun hafa mikil áhrif í aðdraganda kosninga. Hér er á ferðinni mál sem stjórnarflokkarnir verða að taka afstöðu til og geta ekki litið framhjá. Það er reyndar þannig að hver og einn verður að taka afstöðu til þessara mála og stilla upp þeim náttúruperlum sem eru í og við Þjórsá annars vegar og hins vegar virkjunum sem senda orkuna úr héraðinu. Það er nauðsynlegt að prófa þetta á sjálfum sér og taka afstöðu og rökstyðja hana
Það er alltaf gaman á fjölmennum fundum og þessi var skemmtilegur en næst þarf að halda fund þar sem bæði sjónarmiðin koma fram og láta þau takast svolítið á. Það er núna tækifæri til þess að fá stjórnmálamennina til að koma fram á svona fundi og lýsa sinni afstöðu og líka þá sveitarstjórnarmenn sem eru á svæðinu.
Svona fundur yrði auðvitað átakafundur og þá er gott að syngja í lokin eins og gert var í Árnesi. Ég var einu sinni á fundi í Þórshöfn í Færeyjum þar sem stjórnmálaflokkarnir rifust heiftarlega fyrir kosningar en í lokin stóðu allir upp og sungu þjóðsönginn og fóru heim með ró í hjarta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2007 | 13:19
Tvístígandinn er ekki góður
Skipulagsmálið í Mjólkurbúshverfinu okkar hér á Selfossi er alltaf aðeins á hreyfingu. Nú er það nýjasta að frétta að Fossaflsmenn haf nú nýlega fest kaup á tveimur eignum í Þórsmörk og hafa nú keypt allar eignir vestan megin í götunni nema eina. Þannig eru þeir ekki af baki dottnir og hugsa gott til glóðarinnar að fjárfesta í þessu góða hverfi enda ekki furða því hér er gott að búa.
Af byggingareitnum við Austurveg 51 - 59 er það aðsegja að einhver hreyfing virðist vera á málum. Það fréttist af Fossaflsmönnum á fundi með bæjarstjórnarfólki þar sem var togast á. Miðað við það sem heyrst hefur þá getur verið að málið verði á dagskrá í skipulagsnefnd í næstu viku en maður veit þó aldrei.
Kannski er það óskhyggja að gera sér vonir um að bæjarstjórnin taki á sig rögg og ákveði hvernig hún vill að deiliskipulag þessa reits sé og hvernig það á að samræmast þeirri byggð sem er í hverfinu. Það er einhver fjárans tvístígandi í kringum þetta það væri betra að það væri ungmennafélagsandi því hann er alltaf að reyna að gera eitthvað fyrir fólkið en tvístígandinn veit aldrei hvað hann vill og getur ekki tekið ákvörðun.
Nýi bæjarstjórinn hefur stöðu til að taka á málinu og kippa því í liðinn. Það þarf að klára þetta mál, það gengur ekki lengur að íbúunum sem næst þessum reit búa sé haldið í gíslingu og stillt upp við vegg með eignir sínar. Það er réttur íbúanna að vita hvernig deiliskipulag íbúðabyggðarinnar verður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 22:40
Gleði á Húnablóti
Ferðaklúbbur Húna hélt sitt árlega þorrablót fyrir skömmu. Eins og venja er þegar Húnar hittast þá var glatt á hjalla, sagðar sögur og rifjaðar upp skemmtilegar minningar frá ferðalagi síðasta sumars. Blótið var hjá Oddu sem fékk aðstoð frá Sirrý við undirbúning og Esther í lokin. Maturinn var mjög góður og að sjálfsögðu voru bornar fram dýrindis pönnukökur að hætti Oddu enda enginn desert betri.
Á blótinu kom út ferðabókin Húnninn en það er venja að gefa út ferðalýsingu í hálfbundnu máli eftir hverja ferð og það er líka venja að bókina fá aðeins þeir sem fóru í ferðina. Þetta var góð stund sem við Húnarnir áttum þarna við að gleðjast og njóta samverunnar.
Á minni myndinni gæða Húnar sér á kræsingum þorrahlaðborðsins og á þeirri stærri eru ferðahópurinn á hlaðinu að Látrum þangað sem farið var á liðnu sumri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2007 | 22:01
Miðbæjarskipulag í skugga samnings um Miðjuna
Miðbæjarfélagið hélt fund í kvöld þar sem uppi voru myndir af tillögunum sem komu fram í samkeppni bæjarstjórnar um skipulag miðbæjarins á Selfossi. Elfa Dögg formaður félagsins og bæjarfulltrúi fór í stuttu máli yfir tillögurnar og málatilbúnaðinn og hver væru næstu skref.
Það kom fram sem vitað hefur verið að samningurinn sem bæjarstjórnin gerði við Miðjumennina svokölluðu er grundvöllur þeirra tillagna sem fram komu og þess hversu mikið byggingamagn er sett inn á svæði sem áður var ætlað undir miðbæjargarð. Í forsendum samkeppninnar var þetta byggingamagn og þess vegna hefur þessi samningur óbeint stýrt penna arkitektanna sem tóku þátt í samkeppninni.
Fundarmenn voru sammála um að skora á bæjarstjórnina að halda opinn fund um miðbæjarskipulagið og greina þar frá öllum forsendum sem settar voru fyrir samkeppnina og líka frá öllum samningum sem gerðir hafa verið við lóðarhafa á svæðinu. Þeir eru margir sem vilja sjá samninginn sem bæjarstjórn síðasta kjörtímabils gerði við Miðjumennina.
Það á eftir að koma í ljós að samningurinn við Miðjumennina var liður í þeirri græðgisvæðingu sem verið hefur við lýði í landinu og síðasta bæjarstjórn kynti undir með þessum samningi og líka með samningi og þjónkun við Fossaflsmenn í kringum deiliskipulag þess fyrirtækis við Austurveg 51 - 59, í Mjólkurbúshverfinu.
Það er ljóst að grunnhyggni er varhugaverð í skipulagsmálum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2007 | 15:46
Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur með hámarksöryggi
Það er alveg ljóst og mjög ánægjulegt að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra er með það í undirbúningi að tvöfalda bæði Suðurlandsveg og Vesturlandsveg. Mbl.is segir Skessuhorn hafa náð að kíkja í samgönguáætlunina. Beinast liggur við að hann fari einkaframkvæmdaleiðina sem Sjóvá hefur haft frumkvæði um að benda á. Með því að fara þá leið tryggir hann að framkvæmdunum lýkur á 4 - 5 árum.
Það sem er sérlega ánægjulegt er að Sturla blakar við 2 + 1 mönnunum sem hafa lagst gegn 2 + 2 vegi. Sturla og stjórnarþingmenn ætla greinilega að ná hámarksöryggi á þessum vegum með því að tvöfalda þá. Þeir mega bara ekki gleyma lýsingunni því hún gefur ökumönnum mikið öryggi í dimmviðri. Það er alveg ljóst að Sturla nýtur mikils fylgis við þetta stórátak sem hann er að fara af stað með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2007 | 16:13
Samgönguráðherra ætlar að tvöfalda Suðurlandsveg
Það var ánægjulegt að verða vitni að því þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lýsti því yfir í gær í sjónvarpinu að Suðurlandsvegur yrði tvöfaldaður. Síðan hnykkti hann á þessu í fréttum í dag. Þetta er mikilvæg yfirlýsing og tilefni til að óska samgönguráðherra til hamingju með þessa yfirlýsingu. Það er gríðarlegur stuðningur við þessa framkvæmd í vegamálum.
Hannes Kristmundsson vinur minn og frumkvöðull þess að reisa 52 krossa við Kögunarhól í Ölfusi til minningar um þá sem farist hafa á Suðurlandsvegi er nú á leið til Sturlu í samgönguráðuneytið til að afhenda honum blómvönd frá okkur með hamingjuóskum og baráttukveðjum.
Það er nauðsynlegt að hefjast handa sem fyrst við að tvöfalda og lýsa veginn og ná þannig því hámarksöryggi sem vegurinn getur boðið. Nauðsynlegt er einnig að leggja áherslu á að ökumenn aki varlega og eftir aðstæðum hverju sinni ásamt því að hafa gott auga með ástandi bifreiða sinna.
Myndin sýnir Geir Haarde forsætisráðherra, Hannes Kristmundsson og Sturlu Böðvarsson þegar Hannes hafði afhent þeim blóm í tilefni af afhendingu 25 þúsund undirskrifta þar sem hvatt var til tvöföldunar og lýsingar Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2007 | 13:12
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)