Megn óánægja íbúa Mjólkurbúshverfis með 5 hæða byggingar við Austurveg

Bæjarstjóri átti, ásamt bæjarritara,  fund með íbúum Mjólkurbúshverfis, sem gert hafa athugasemdir við skipulag lóðanna Av. 51 - 59,  í morgun kl 9,00 - 10,00 þar sem hún kynnti íbúum að tillaga um byggingu 5 hæða húsa  með inndreginni efstu hæð á byggingarreitunum við Austurveg yrði  tekin fyrir í skipulags- og bygginganefnd kl 12,00 í dag.  Sagði hún að byggingarnar hefðu verið lækkaðar til að koma til móts við athugasemdir íbúa.  Engin teikning af  skipulagi lóðanna var sýnd á fundinum og þótti íbúum það miður og sýnt að fundurinn væri  haldinn til málamynda en ekki til að fá fram  hugmyndir til að vinna með.
Á fundinum létu íbúar í ljós megna óánægju með alla málsmeðferð vegna deiliskipulags lóðanna við Austurveginn. Í öllu ferli málsins  sem tekið hefur rúmlega eitt ár hafa bæjaryfirvöld aldrei haft frumkvæði að því að boða íbúa til kynningarfundar um breytingu á deiliskipulagi Mjólkurbúshverfisins.  Hins vegar hefur bæjarstjórn fundað ítrekað með lóðarhafanum sem sækir það stíft að fá að byggja á lóðunum. Rétt er að taka fram að bæjarstjóri  átti sæti í þeirri bæjarstjórn sem vildi að á lóðunum risu 6 hæða hús og lét liggja á milli hluta að íbúarnir væru sniðgengnir.
Vakin var athygli bæjarstjóra á því að fyrir hendi er deiliskipulag af Mjólkurbúshverfinu og að Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur hefði að ósk íbúa sett fram álit á því hvernig standa ætti að breytingum á deiliskipulagi. Hann bendir á að líta þurfi til heildarinnar sem hverfið myndar og sýna breytinguna með tilliti til þeirra húsa sem eru fyrir hendi.  Þetta segir hann í ljósi þess að í skipulagsreglugerð nr 400/1988 segir: "Við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skal þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar."  Þessa hefur bæjarstjórn ekki gætt og ekki heldur skipulags- og bygginganefnd, að minnsta kosti ekki til þessa. Spurning hvað hún gerir núna klukkan 12:00.
Það kom glögglega fram hjá íbúum á fundinum með bæjarstjóra að það skiptir engu máli hvort hæð húsanna er 5 hæðir eða 6 hæðir áhrifin eru þau sömu. 5 hæða hús er 14 metra hátt og stendur á hæsta punkti í hverfinu.  Húsið mun standa 15 metra frá stofuglugga næsta húss. Bæjarstjóri hafði ekki skoðun á því  atriði.  Hún sagði það ekki "ásættanlegt" að taka upp skipulag hverfisins í heild, hvað svo sem það þýðir. Hún hafði engin svör við því hvernig umferðarathugun hefði komið út og gaf ekki ákveðin svör um að hún hefði verið gerð.
Það kom skýrt fram í máli bæjarstjóra að málið færi til skipulagsnefndar í dag, síðan til bæjarráðs og svo til umsagnar hjá Skipulagsstofnun. Síðan sagði hún að gert væri ráð fyrir því að framkvæmdir hæfust í sumar.  Hin nýja tillaga yrði ekki sett í auglýsingaferli eins og um nýja tillögu væri að ræða. Miðað við það sem á undan er gengið má gera ráð fyrir að bæjarstjórn staðfesti  þennan gjörning á sínum, sennilega 2. maí.
Í lok fundar lýstu íbúar því hvaða áhrif þetta mál hefði haft á búsetugæðin í hverfinu frá því bæjaryfirvöld byrjuðu að valta yfir íbúana með gerræði sínu fyrir rúmu ári.  Í máli þeirra kom fram að þeir búa við mikla óvissu og nokkrir hafa þegar selt eignir sínar lóðarhafanum að Austurvegi 51 - 59 sem hefur verið viljugur að kaupa þær.  Engin vissa er komin í málið gagnvart íbúunum sem líður ekki vel undir framgöngu meirihluta bæjarstjórnar gagnvart þeim en bæjarstjórnin, meirihluti hennar, hamast við að koma til móts við verktakann og hans áform en lætur hagsmuni íbúanna í hverfinu lönd og leið.

Dagdvöl á Selfossi fyrir alzheimersjúka í augsýn

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum 29. mars að starfa með Félagi aðstandenda alzheimersjúkra, FAAS, að því verkefni að koma á fót dagdvöl á Selfossi fyrir 15 einstaklinga.  FAAS kynnti slíka dagdvöl á fræðslufundi Vinafélags heimilisfólks Ljósheima í nóvember á síðasta ári og hefur síðan verið í góðu sambandi við bæjarstjórnina varðandi þetta mál. Félagið starfrækir dagdvöl á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, Fríðuhús í Reykjavík og Drafnarhús í Hafnarfirði. 

Þessi samþykkt bæjarráðs þýðir að gera má ráð fyrir að dagdvöl fyrir alzheimersjúka taki til starfa á Selfossi eftir ca, eitt ár.  Sveitarfélagið mun útvega húsnæði en FAAS annast rekstur og fá til þess daggjöld frá ríkinu.  Á fræðslufundinum í nóvember kynntu forsvarsmenn FAAS að góð orð hefðu verið gefin af yfirvöldum um daggjöld til reksturs dagdvalar á landsbyggðinni.

Þessi samþykkt bæjarráðs er mikið ánægjuefni fyrir þá fjölmörgu sem þurfa á þessari brýnu þjónustu að halda. Bæjarráði og bæjarstjórn er óskað til hamingju með eftirfarandi samþykkt bæjarráðs. 

"Meirihluti bæjarráðs samþykkir að hafinn verði formlegur undirbúningur að samstarfi milli sveitarfélagsins og FAAS um að koma á fót dagdvöl fyrir alzheimersjúklinga í Sveitarfélaginu Árborg. Bæjarstjóra er falið að rita bréf til heilbrigðisráðuneytis þar sem fram komi að Árborg muni leggja til húsnæði fyrir starfsemina. Bæjarstjóra, ásamt framkvæmdastjórum sviða er falið að vinna málinu framgang í samráði við bæjarráð."  Minnihluti bæjarstjórnar er meirihlutanum samstiga í málinu og tók undir samþykktina enda áður vakið máls á málsefninu og sýnt því góðan áhuga.


Undirbúningur hafinn að tvöföldun og lýsingu Suðurlandsvegar

Suðrlandsvegur SjóvárDagurinn í dag markar upphaf að undirbúningi framkvæmda við tvöföldun og lýsingu Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss.  Samgönguráðherra fól Vegagerðinni að hefja undirbúning að útboði tvöföldunar Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Um er að ræða stórátak í þessu efni sem mun skila gríðarlega miklu varðandi umferðaröryggi og atvinnumál.

Mikilvægt er að framkvæmdin nái að tryggja hámarksöryggi þessara mannvirkja eins og Sjóvá  hefur bent á að nauðsynlegt sé að gera. Sjóvá kynnti sína leið með tvöföldu vegriði milli akstursbrauta á Suðurlandsvegi og lýsingu sem staðsett er milli akstursbrautanna.  Sjóvá hefur líka kynnt þann möguleika að ljúka tvöföldun og lýsingu á fjórum árum með því að farin verði leið einkaframkvæmdar.  Nauðsynlegt er að samgönguráðherra skoði það vandlega.

Rétt er að óska samgönguráðherra og þingmönnum til hamingju með þennan langþráða dag.  Vinir Hellisheiðar hófu umræðuna um breikkun og lýsingu Suðurlandsvegar fyrir 7 árum. Á þeim tíma komu stöðugt fleiri og tóku þátt í umræðunni og þessi framkvæmd er nú aðaláhersla sveitarstjórna og alþingismanna í kjördæminu.  Samstaðan sem myndaðist hefur skilað málinu áfram og nú er að tryggja að tvöföldun og lýsing Suðurlandsvegar verði tryggð á sem skemmstum tíma.


Fyrsti fiskur vorsins í Soginu fyrir Torfastöðum

Fyrsti fiskur vorsins 003Það var kominn 9 stiga hiti um 13:30 og hið besta veður við Sogið ofan Álftavatns fyrir Torfastaðalandi.  Það var svo um tvöleytið sem fyrsti fiskurinn gerði vart við sig með því að taka peacock og slíta grannan tauminn.   Aftur var rennt í hylinn og viti menn skömmu síðar var hann á 2ja punda urriði ljóngrimmur og sprækur. Rétt seinna var hann komin ná land og fyrsti veiðifiðringur vorsins hafði fengið sína útrás.

 Það var sérlega fallegt við Sogið í dag, sólarglennur og birtan merlaði í vatninu. Það heyrðist í gæsum og öndum og svo var vatnabúinn viðstaddur og tilbúinn að taka. 

Veiðimenn eru vongóðir og hugsa til sumarsins með ánægju því mjög hefur fækkað netunum í Ölfusá og tækifærin færast nær að efla megi Sogið og aðrar bergvatnsár með ræktun ogsvo auðvitað Hvítána sjálfa og Ölfusá.  Netaveiði á ekki rétt á sér.


Tvöföldun og lýsing Suðurlandsvegar innan seilingar

Suðrlandsvegur SjóvárÞað var ánægjulegt að heyra fréttina í gær um kynningu Sjóvár og Ístaks um kostnað vegna tvöföldunar og lýsingar Suðurlandsvegar milli Reykjavíkur og Selfoss. Kostnaðurinn er áætlaður 7,5 - 8 milljarðar. Vegagerðin áætlaði kostnaðinn 13,5 milljarða og að 2 + 1 vegur kostaði 5,8 milljarða. Mogginn gerir áformum Ístaks og Sjóvár góð skil í dag.

Leið Sjóvár byggist á því að ná hámarksöryggi á veginum með tvöföldun hans og lýsingu. Út frá Reykjavík og milli Selfoss og Hveragerðis  er gert ráð fyrir hringtorgum likt og á veginum milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Þrjú mislæg gatnamót eru frá Gunnarsholti að Hveragerði.

Ánægjulegt er að Sjóvá gerir ráð fyrir lýsingu á milli akbrautanna sem eru aðskildar með 2,5 metra bili og tveimur vegriðum. 

Ljóst er að hér er komin fram tillaga að vegi sem nær því markmiði að hámarka það öryggi sem vegurinn getur veitt vegfarendum. Önnur áhersluatriði varðandi öryggi lúta að ökumönnum og ökutækjum.

Vonandi bera yfirvöld gæfu til þess að fara þá leið sem Sjóvá og Ístak leggja til. Einfaldasta leiðin væri að  ganga til samninga við þessa aðila um framkvæmdina eftir að farið hefur verið gaumgæfilega yfir áætlun þeirra. Í framhaldi af því kæmi síðan fram endanleg nákvæm kostnaðaráætlun og svo verkáætlun. 

Sannarlega ánægjulegt að sjá drauminn um tvöföldun og lýsingu vegarins innan seilingar.


Góður aðalfundur hjá Vinafélagi heimilisfólks Ljósheima

Aðalfundur Vinafélags Ljósheima var haldinn í gær í setustofu Ljósheima. Heimilisfólk mætti til Esther skrifstofustjóri  og Magnús framkv.stjórifundarins, einnig aðstandendur, stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, fulltrúi Kvenfélags Selfoss og starfsfólk. Venjuleg aðalfundarstörf voru á dagskrá auk þess sem stjórnendur HSu, Magnús Skúlason framkvæmdastjóri og Esther Óskarsdóttir skrifstofustjóri ávörpuðu fundinn. 

Stjórn félagsins var endurkjörin en Þórey Axelsdóttir gekk úr stjórn og  Ólafía Halldórsdóttir var kosin í staðinn.  Þóreyju var afhentur blómvöndur sem þakklætisvottur fyrir góð störf í þágu félagsins. Einnig var Hólmfríði Júliusdóttur færður blómvöndur  fyrir gott starf en hún annast tómstundastarfið á Ljósheimum en það hefur blómstrað í höndum hennar. Á fundinum var dálítil handavinnusýning þar sem voru munir sem heimilisfólk hefur búið til. Auk handvinnunnar er lögð áhersla á söng og gamanmál  til þess að létta upp stundina. Á fundinum kom fram að heimilisfólk er mjög ánægt með þessa starfsemi.Hólmfríður, Sigurður og þórey

Tvær ályktanir voru samþykktar þar sem bæjarstjórn Árborgar var hvött til að vinna með Félagi aðstandenda alzheimersjúklinga að því að koma á fót dagþjálfun fyrir heilabilaða á Selfossi fyrir Suðurland.

 Magnús Skúlason sagði reiknað með því að starfsemi Ljósheima flyttist á 2. hæð í nýbygginguna við Árveg í september og síðan yrði 3. hæðin opnuð þremur mánuðum síðar. Hann sagði mikla eftirvæntingu ríkja gagnvart þessu verkefni. Hann sagði einnig að tómstunda- og afþreyingarstarfið á Ljósheimum sem Vinafélagið hefi staðið undir yrði hluti af starfsemi hjúkrunardeildarinnar á nýjum stað. Gott samstarf yrði áfram við Vinafélagið um starfsemi þess með heimilisfólki deildarinnar.

 Esther Óskarsdóttir skrifstofustjóri sagði frá því að 23 ár væru liðin síðan Ljósheimar voru teknir í notkun sem hjúkrunarheimili en það var 16. mars 1984 sem Ljósheimar voru vígðir sem  hjúkrunarheimili og fyrstu heimilismenn  voru skrifaðir inn 24. mars.  Það var hins vegar  18. Hluti af handavinnu heimilisfólksdesember 1981 sem Sjúkrahúsið á Selfossi, en það var starfrækt í húsnæði Ljósheima, flutti starfsemi sína í sjúkrahúsið við Árveg.  Þegar þeim flutningum var lokið kom í ljós að fleiri rúm vantaði og þess vegna varð mikil vakning fyrir því að gera Ljósheima að hjúkrunarheimili.  Esther sagði ótrúlegt að hugsa til þess hversu mikil starfsemi hefði farið fram á Sjúkrahúsinu á Selfossi þegar það var starfrækt við Austurveginn. Þar voru rými fyrir 26 en alltaf voru þar inniliggjandi 30 sjúklingar og öll sjúkrahússtarfsemi fór þar fram. 

Í lok fundarins tóku fundarmenn lagið en síðan beið þeirra kaffiborð sem allir gerðu góð skil.

 Á fundinum var lögð fram starfsskýrsla stjórnar og fer hér á eftir inngangur skýrslunnar:

Inngangur 

“Umhyggjan er mönnunum eins og sólin er blómunum.”  Þessi setning lýsir vel því inntaki sem nauðsynlegt er  þegar hugað er að þjónustu við fólk sem þarf á aðstoð að hald, af hvaða tagi sem það nú er.

 

Hjúkrunarheimilið Ljósheimar á Selfossi hóf starfsemi þegar mikil þörf var fyrir hendi varðandi þjónustu við aldraða.   Enn er þörfin mikil og kröfur eru gerðar um allt aðrar aðstæður en uppi voru þegar Ljósheimar hófu starfsemi.  Þjónusta við aldraða á hjúkrunarheimili er sérhæfð og beinist að því  að sinna hverjum einstaklingi út frá hans þörfum og þarfir heimilisfólks eru  mismunandi eftir hverjum og einum.  Vaxandi er sú krafa að unnt sé að sinna ákveðnum hópum sérstaklega einkum þeim sem búa við heilabilun.

 

Það sem heimilisfólk á hjúkrunarheimili á sameiginlegt er að staðurinn er þeirra heimili og þarf að hugsa starfsemina út frá því inntaki. Þar á fólkið heima með þeim takmörkunum sem það  hefur.  Sá sem býr á hjúkrunarheimili getur ekki sótt þjónustu sem er til staðar í samfélaginu fyrir aldraða nema hún sé veitt inni á heimilinu. Þar er komið inntakið í starfsemi Vinafélags Ljósheima sem varð til í byrjun árs 2004 til þess að halda úti tómstundastarfsemi og afþreyingu inni á heimilinu að Austurvegi 28 á Selfossi.

 

Framundan eru breytingar hjá Ljósheimum þegar starfsemin flyst í nýbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg. Þar má segja að starfsemi Ljósheima verði á tveimur hæðum. Þar er gert ráð fyrir sérhæfðri deild fyrir heilabilaða þar sem unnt verður að koma til móts við þeirra þarfir.  Það er gleðiefni að horfa fram til nýrrar aðstöðu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.  

Með flutningi Ljósheima munu áherslur Vinafélagsins breytast. Stefnt er að því að tómstundastarf og afþreying verði á hendi HSu að öllu leyti en Vinafélagið mun einbeita sér að öðrum þáttum í meira mæli svo sem aðstöðusköpun í góðu samstarfið við HSu til að auðvelda stofnuninni að koma til móts við ólíkar þarfir fólks.  

 

Dagþjálfun fyrir heilabilaða er mikilvægur þáttur sem nauðsynlegur er til þess að létta álagi af aðstandendum. Félag aðstandenda alzheimersjúklinga vinnur að því að koma slíkri þjónustu upp á Selfossi fyrir Sunnlendinga. Hefur FAAS haft samstarf við bæjarstjórn Árborgar um þetta mál. Vinafélagið hefur einnig lagt þessu mikilvæga máli lið.

Öllum þeim sem stutt hafa starfsemi Vinafélags Ljósheima er þakkað fyrir hlýjar hugsanir, góðan stuðning og rausnarleg framlög.

 Selfossi í febrúar 2007Sigurður Jónsson formaður

Nýjungar og ljósmyndasamkeppni hjá Mogga

Var á  góðum aðalfundi fréttaritara í dag þar sem mættu framkvæmdastjóri Árvakurs og ritstjóri Moggans ásamt fréttastjórum og fleirum.  Framkvæmdastjórinn og ritstjórinn lýstu vel þeim breytingum sem hafa orðið á blaðinu og eru í bígerð en mbl.is er stöðugt vaxandi miðill og verður miðill framtíðarinnar á meðan þrengist um á síðum gamla Moggans.  Í náinni framtíð verður aðaláherslan á að flytja fréttir  sem hraðast og þá gegnir mbl.is lykilhlutverki. Einar Sigurðsson framkvæmdastjóri lýsti því hvernig fréttaritarar gætu orðið lykilaðilar í því að sinna fréttamiðlun á netinu. Mjög áhugavert.

Svo voru afhent verðlaun í myndasamkeppni fréttaritara Morgunblaðsins. Jónas í Fagradal fékk verðlaun fyrir mynd ársins sem var af skýjamyndun fyrir ofan Vík í Mýrdal , mjög sérstæð mynd.

Í minn hlut komu tvær viðurkenningar, í flokknum Spaug og Daglegt líf.  Spaugsama myndin er af Jónu Ingarsdóttur á leið í dömuboð með hana fyrir hatt. Hin er af krökkunum á Egilsstöðum, Alvari Loga, Ástu Dís og Maríu að leika sér á trambolíni.Jóna á leið í dömuboð  í feb. 06  Allar myndirnar eru til sýnis í Smáralindinni.

Gaman á trambolíninu á Egilsstöðum


Mikið samráð boðað um miðbæjarskipulag

Við hjónin skelltum okkur á áhugaverðan fund bæjarstjórnar í Hótelinu í kvöld þar sem verðlaunatillagan í samkeppni um miðbæjarskipulag var kynnt. Það var góð mæting á fundinum og þar komu fram ný viðhorf gagnvart kynningu á skipulagi en áður hefur verið. Mynd af miðbæjartillögu

Bæjarstjórinn sagði þetta fyrsta fundinn til að kynna málefnið en síðan yrðu fleiri fundir þar sem hagsmunaaðilar í miðbænum yrðu kallaðir til til skrafs og ráðagerða. Einnig yrði þeim boðið til að vera með í rýnihóp um skipulagið. Síðan væri fyrirhugað að fikra sig fram til góðrar niðurstöðu.

Fundurinn var góður, þar komu fram ýmis viðhorf og ábendingar einnig var á honum farið gróflega yfir samning bæjarins við Miðjumenn en hann lá að nokkru til grundavallar í forsendnalýsingunni. Kannski hefði verið best fyrir bæjarstjórnina að kaupa allar lóðir í miðbænumog láta síðan skipuleggja miðbæinn með það fyrir augum að selja síðan byggingaréttinn aftur.

Verðlaunatillagan er gölluð að ýmsu leyti en það eru góðar glefsur í henni og kannski best hvað hún er opin.  Bæjarstjóri sagði það hafa mikla kosti að ekki væri allt njörfað niður.  Menn gagnrýndu höfundana til dæmis fyrir að ætla sér að búta Tryggvaskála niður og flytja hann fram á árbakkann þar sem mesti flóðastrengurinn væri þegar áin flæddi og þeir viðurkenndu að þetta væri dálítið út í loftið.

Við sem erum í Mjólkurbúshverfinu og stríðum við einstrengingslega bæjarstjórn myndum fagna því ef svona fundur yrði haldinn um skipulagið við Austurveg 51 - 59. En því er ekki að heilsa. Menn úr bæjarstjórn urðu dálítið kindarlegir þegar ég spurði um það hvort ekki yrði haldinn svona upplýsandi fundur í Mjólkurbúshverfinu.  Það er nefnilega nauðsynlegt að gæta þess að gefa íbúunum tækifæri til að kynnast breytingum á þeirra næsta nágrenni og reyndar bundið í lög. Kannski verður svona fundur haldinn þar sem höfundar  tillögunnar við Av 51 - 59 kynna kosti tillögu sinnar og við íbúarnir fáum að spyrja þá og líka bæjarstjórnarmenn um þeirra álit, forsendur og samninga, opinbera og leynilega.  Hver veit - kannski er ráð að leita eftir því.


Tröll og álfar á Stokkseyri

 

Þorgerður skoðar tröllskessunaJæja, nú eru tröllin og álfarnir komnir í hús á Stokkseyri og hafa fengið aðsetur. Þar má einnig dást að Norðurljósunum. Það eru frumkvöðlarnir Benedikt Guðmundsson, Bjarni Harðarson og Þór Vigfússon sem hafa þarna gert hugmyndir að veruleika og eru bara rétt að byrja eins og þeir sögðu við opnunina. Þar klippti Þorgerður Katrín á gylltan borða með gullskærum og mannfjöldinn hópaðist inn í álfaheima bak við foss og síðan inn í tröllaheiminn þar sem kraumaði í potti og tröllið lá og hraut. Síðan var farið um dularfullan skóg  og inn í ískalda veröld Norðurljósanna. Hringferðinni lýkur svo á þjóðfræðatorgi þar sem þjóðlegir munir eru til kaups og í framtíðinni þjóðlegur. Á myndinni klappar Þorgerður Katrín tröllinu og sonur hennar fylgist með.Tröllskessan  Tröllið er auðvitað stórgert eins og  önnur mynd sýnir.

Það var gaman að skoða þessa nýju viðbót sjá hverju menn hafa áorkað. Hér er á ferðinni lifandi og skemmtilegur staður sem gefur ákveðna upplifun.

Það er mikið magn af grjóti í húsinu sem er haganlega fyrir komið og skapar skemmtilega umgjörð sem býður upp á  alls kyns lifandi uppákomur  fyrir gesti. Þetta er góð söluvara í ferðaþjónustu.

Hinir nýju útgerðaraðilar í menningarverstöðinni á Stokkseyri hafa fært út kvíarnar og  rétt er að óska þeim til hamingju með það. Stokkseyri og Eyrarbakki eru  Norðurljósaheimurinnvaxandi menningarþorp hvort á sínu sviði.

Megi frumkvöðlakraftur þeirra Benna, Bjarna og Þórs smita fleiri athafnaskáld og hugmyndasmiði til að virkja nýja hugsun til framfara.

 


Á Jónsarablóti með létta lund

Það var fjör að vanda á Jónsarablóti þegar komið var saman hjá Gísla og Emmu. Þetta var  tuttugasta árið í röðinni sem blótið var haldið og á sama stað núna og það var í fyrsta sinn. Auðvitað voru myndaalbúm með  til að sýna söguna.Jónsarablót 07 002

 Hlaðið borð að vanda af þorramat, góð stemmning, hátt var hlegið og slegið á létta strengi.  Gísli tók á móti gestum með frosinn drukk sem gleyptur var í skyndi og síðan skundað að þorraborðinu. Móðir vor byrjaði að vanda og fékk sér nettan skammt á diskinn. Síðan kom hver af öðrum, Mummi og Lára ásamt Óla en Lára stríðir við öklabrot. Siggi og Esther voru ein því afkvæmin voru vant við látin, Dúdda var sein og Maggi  með henni en hún kom af söngæfingu í Skálholti, Gísli var mættur  og Emma með matinn, Edda Ósk og Davíð og svo kom Sævar með Halldóru sína. Svo komu synir Sigríðar, Davíð Örn með Huldu og Jón Trausti með Hrafnhildi en Sigríður var á skíðabrekkum Mamma fær sér skammtAusturríkis en þar ku víst vera rigning. En hvað um það svo kom Kári með Aron sem er stærri en hann en Kristjana var með flensu og Gunni var mættur með Önnu Fríðu án afkvæma en nýbúinn að byggja hús á Skeiðunum og orðinn sannur Skeiðamaður. Nú þarf að finna nafn á hús hans og verður það nefnt Gunnarshólmi því von er á miklu Landsvirkjunarlóni þar rétt hjá. Svo kom Ásmundur skálmandi  með Möggu sína en hann var sigurvegari kvöldsins, mætti með fullt hús fjölskyldumeðlima, Önnu Hlíf með Fróða og Thelmu með Jón.

Eftir átið var farið í leiki en Emma var að vanda klár með málshætti víða að sem voru lesnir með tilþrifum.  Sögur voru sagðar og kerskni viðhöfð eins og vera ber. Svo var farið í vígsluleik en þá taka bara nýliðar þátt og þeir sem skriðnir eru yfir aldursmörkin sem eru 16 ár. Nú voru það fjölskyldumeðlimir Ása og Davíð sem máttu reyna sig í bangsaleiknum hennar Estherar.  Kári var sögumaður, nýkominn frá Skotlandi og klæddist að hætti Hálandahöfðingja, í pilsi, ber innanundir, með loðna leggi og húfu á höfði. Las hann skýrt og greinilega og mikið fjör í leiknum.  Þóttu leikararnir standa sig vel.

Síðan stilltu bræðurnir sér upp í glímustöðu og hlógu hátt með góðri opnun. Í undirbúningi var að Bræðurnir fara til Skotlands  og heimsækja Kára og Kristjönu. Haft var á orði að bræðurinir fengju sér viðhafnarbúning skoskan í þeirri ferð til að klæðast á þorrablótum, pils með beru innanundir og pung framaná, húfu, skyrtu og sekkjapípu handa Gísla því hann kann að blása í túbu. Síðan var haft í flimtingum að keppa þyrfti í Hálandagreinum á skoskri grund í þessum búnaði, staurakasti og ölþambi.  Hljóp nokkurt kapp í mannskapinn sem birtist með miklu og háværu masi og hlátrasköllum að hætti ættarinnar.  Ekki verður þó úr þessari vorri ferð því hún seldist upp og verður að bíða betri tíma sem verður notaður til að skipuleggja hana enn betur og allar þær keppnisgreinar sem teknar varða upp. Tekin var æfing í að klæðast pilsi Kára svona til að öðlast tilfinninguna. Riðu þeir á Bangsaleikurinn og Hálandahöfðinginnvaðið Gísli og Ási enda frakkir menn og ákafir í anda, aðrir urðu hvumulegir við pils þetta enda ekki aldir upp við að klæðast pilsum. Þurfa lengri tíma.

Leið nú að miðnætti og þeim tíma þá móðir vor stendur upp og segir jæja, snarast í kápu og heldur til dyranna. Hvur keyrir mig, segir hún og Mummi hljóp undir þann bagga með glans. 

 Mikið var síðan skeggrætt og skrafað fram á nóttina. Var Gísli gestgjafi í essinu sínu og blandaði geði með góðri lund, tók utan um konur og var glettnin uppmáluð. Er hann manna fremstur í þessari grein og geldur engrar afundar annarra enda söngmaður góður þó ekki tæki hann lagið.Gísli mátar SkotapilsiðÁsi í skoskri stöðu

Emma var vel í verkum sínum reiddi fram hvaðeina, kaffi og konfekt ásamt öðru góðgæti. Öllu þessu fylgdi svo hin dillandi létta lund þar sem allt er sjálfsagt.

Er nú nógsamlega bloggað um blót þetta og hugað að góðri tíð og tækifærum sem framundan eru. Eru allir um þáð sammála að mikilvægt er lífsandanum að styrkja og efla fjöölskyldutengsl vor því þar blómstrar kærleikurinn. Heitum vér góðri mætingu á næsta blóti og öllum þeim samkomum er vér köllum til, stórum og smáum í heimahúsum eður á víðavangi. Kærar kveðjur til þeirra ættmenna sem blogg þetta lesa.

Lifið heil og létt í andaÁsi og fjölskylda.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband