25.5.2007 | 03:52
Útskrift hjá Siggu Rós í sól og sumaryl
Útskriftardagur Siggu Rósar rann upp bjartur og fagur í morgun. Hún var mætt í háskólann UBC klukkan sjö og við vorum síðan komin á svæðið klukkan rúmlega 8,00 þegar prófessorar og útskriftarnemar gengu í skrúðgöngu til glæsilegs samkomusalar skólans. Fremstir fóru prófessorar og yfirmenn háskólans og síðan komu þeir sem voru að fá doktorsgráðu, þá mastersnemar og loks kennaranemar.
Ýtskriftarathöfnin var hátíðleg og virðuleg og fór fram samkvæmt hefðum skólans með ávarpi yfirmanna háskólans og ávarpi útskriftarnema.
Hægt var að fylgjast með útskriftinni í beinni útsendingu á netinu sem er skemmtilegur þáttur því nemendur eru víða að úr heiminum.
Sigga Rós tók við viðurkenningarskjali sínu sem Master of Education in Special Education.
''I hope your time here has tought you the value of knowledge. I hope, too, that you have learned to recognize the opportunities presented by change, and that you have acquired he skills and courage to take advantage of that change. Again, congratulations on your accomplishment," sagði Allan McEachern, Chancellor UBC háskólans í lok ávarps síns.
Stephen Toope President UBC hvatti nemendur til að takast á við þann ótta sem vitað væri að blundaði með fólki sem væri að takast á við óþekktar stærðir og það sem biði í framtíðinni. Hann lagði áherslu á að ekki mætti láta óttann ráða för heldur beita kunnáttu og færni til að skapa afl og veruleika í sátt við umhverfi og menn. ''At this moment, however, as you begin a new stage in your life and experience, you should recognize that you can and will make a difference, because you possess the knowledge and skills that are conferred by a good education,'' sagði Stephen Toope í ávarpi sínu og lokaorð hans voru - ''Whatever challenges that await you, I am confident that, as a member of the UBC Graduating Class of 2007, you have the potential, not only to achieve personal and professional success, but also to help move society towards the ideals of peace, justice, and prosperity for all.''
Eftir athöfnina söfnuðust allir saman á torgi framan við hátíðarsalinn þar sem er mjög fallegt útsýni til fjallanna í kringum Vancouver. Þar voru teknar myndir og hamingjuóskum rigndi yfir þá sem voru að brautskrást. Mikið var myndað og útskriftarnemar stilltu sér upp til myndatöku. Tekin var mynd af Siggu Rós með yfirmönnum skólans.
Síðan fengu gestir og gangandi sér hressingu í tjaldi á torginu og nemarnir skiluðu af sér útskriftarhempunum en héldu hátíðarhattinum.
Þetta var sannkallaður hátíðisdagur og áhrifaríkur sem slíkur. Sigga Rós var ein af 6 þúsund nemendum sem útskrifast á þessu ári frá UBC. Næsta útskrift hjá okkur er á þriðjudaginn þegar Hjalti útskrifast.
Síðan héldum við heim á leið í góða veðrinu, Sigga Rós með mastersskírteinið góða og við með bros á vör og hamingjutár á hvarmi. Eftir hádegið fórum við síðan í skemmtilega fjallaferð og Grouse Mountain og eyddum deginum þar.
Komum heim síðdegis og þegar þetta er skrifað er verið að matreiða ljúffengan íslenskan lambahrygg sem snæddur verður með kanadísku hátíðarvíni úr Okanagan dalnum sem við heimsóttum síðastliðna þrjá daga.
Góður, sólar- og hamingjuríkur dagur að kveldi kominn í Vancouver.
Bloggar | Breytt 26.5.2007 kl. 04:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.5.2007 | 18:06
Í notalegu umhverfi Vancouverborgar í Kanada
Erum núna stödd í háhýsaborginni Vancouver í Canada þar sem hvert háhýsið rís af öðru í miðborginni og mannlífið líður áfram án sýnilegrar streitu. Þau voru bara notaleg háhýsin enda gefið nægilegt rými.
Þrátt fyrir mikila landfræðilega fjarlægð þá er litla Ísland ótrúlega nálægt og við hlustum á fréttirnar í Rúv og fylgjumst með því sem er að gerast. Munum eiga hér góða daga með okkar fólki, kíktum á miðborgina í gær og iðandi mannlífið. Hér er mikil fjölbreytni og fólk af ólíkum kynþáttum, allt með mjög þægilegu yfirbragði.
Veðrið er gott, þægilegur hiti og dálítil rigning öðru hverju. Ekki má gleyma gróðrinum sem er í góðum blóma og blómstrandi tré og runnar hvervetna. Við komum við í Gastown í gær sem er aðeins til hliðar við háhýsin með notalegu umhverfi. Virtum líka fyrir okkur Lionsgate-bridge sem er ansi lík Ölfusárbrúnni okkar. Í dag kíkjum við á úrvalið í verslunum borgarinnar.
Sigga og Hjalti eru í góðu háskólahverfi þar sem íbúðir stúdenta og háskólastofnanir eru í næsta nágrenni og umhverfið greinilega hvetjandi fyrir metnaðarfullt fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 23:48
Dapurlegur bæjarstjórnarfundur í Árborg 9. maí
Íbúar í Mjólkurbúshverfinu mættu á fund bæjarstjórnar Árborgar í gær til þess að fylgja eftir áherslum sínum varðandi skipulag Mjólkurbúshverfisins. Minnihluti bæjarstjórnar óskaði eftir því að íbúum væri gefið tækifæri til að tjá sig á fundinum en því var hafnað. Þegar kom að afgreiðslu skipulagstillögunnar las bæjarstjóri upp eina málsgrein þar sem hún sagði að meirihlutinn hefði komið til móts við athugasemdir með því að lækka húsin um eina hæð. Enginn annar bæjarfulltrúi tók til máls utan einn sem sagði fátt. Eftir því var tekið að fulltrúi Vinstri grænna þagði þunnu hljóði á fundinum eins og aðrir bæjarfulltrúar meirihlutans. Það var greinilegt að þessi framganga var skipulögð en bæjarfulltrúar meirihlutans komu til fundarins frá skrifstofu bæjarstjóra. Engin upplýsandi umræða fór fram af hálfu meirihlutans til að gera grein fyrir stefnu hans í málinu. Minnihluti bæjarstjórnar kom vel fram í málinu og lýsti eindregnum vilja til þess að hverfið yrði skipulagt í heild sinni og fyrirhugaðar byggingar Fossafls felldar að íbúðabyggðinni og færðar sunnar á lóðunum við Austurveginn.
Eftir þennan bæjarstjórnarfund er ljós stefna meirihlutans varðandi Austurveg 51 - 59 en ekkert er vitað um hvernig hverfið er hugsað að öðru leyti. Eigandi lóðanna hefur nýtt sér tómarúmið sem ríkt hefur undanfarið ár og keypt upp nokkrar lóðir í hverfinu. Þykir það renna stoðum undir þá fullyrðingu að meirihlutinn og lóðarhafinn stefni að því að breyta skipulagi hverfisins síðar. Á bæjarstjórnarfundinum kom fram að fólk hefði séð uppdrátt af hverfinu þar sem einbýlishúsin hefðu vikið fyrir fjölbýlishúsum og garður væri í miðju hverfisins.
Næstu skref í málinu eru þau að bæjarstjóri mun senda skipulagstillöguna til Skipulagsstofnunar til umsagnar áður en hún verður auglýst í B deild Stjórnartíðinda. Íbúar hafa þegar sent sínar athugasemdir til stofnunarinnar. Vænta má þess aðstofnunin geri athugasemdir við tillöguna og afgreiðslu hennar en hún fór aldrei í grenndarkynningu né hafði bæjarstjórnin frumkvæði að því að kynna hana fyrir íbúum. Beið er svars frá Skipulagsstofnun.
Ef marka má nýleg orð bæjarstjóra á fundi (sem íbúar báðu um) þess efnis að framkvæmdir myndu hefjast í sumar, má búast við því að bæjarstjórnin taki ekki tillit til athugasemda Skipulagsstofnunar og sendi tillöguna strax í auglýsingu. Næsta skref eftir það er að gefa út framkvæmdaleyfi. Eftir þá gjörð er bæjarsjóður klárlega skaðabótaskyldur ef stöðva þarf framkvæmdir.
Verði af þessu þá munu íbúar kæra til kærunefndar skipulagsmála og fylgja málinu eftir til úrskurðarnefndar skipulagsmála. Það er því alveg ljóst að skipulagsboxið í Mjólkurbúshverfinu er rétt að byrja. Segja má að meirihluti bæjarstjórnar og Fossafl ehf hafi unnið fyrstu lotu með tæknilegu níðhöggi neðan beltisstaðar þar sem aflsmunar var neytt.
Málinu er alls ekki lokið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 09:56
Eitt ár liðið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 21:50
Furðuleg framganga í Mjólkurbúshverfinu
Esther skrifar:
Alltaf er nú skemmtilegra að hrósa, en að gagnrýna. Því miður er ekki hægt að hrósa meirihluta bæjarfulltrúa í framkomu sinni við íbúa Mjólkurbúshverfisins vegna fyrirhugaðrar bygginga 2ja stórhýsa að Austurvegi 51-59. Það er með ólíkindum klaufaháttur meirihlutans gagnvart skipulagsmálum. Ekki getur það kallast góð stjórnsýsla, að setja málin í þann farveg að bæjarfélagið fái á sig stórar skaðabótakröfur frá íbúunum. Það er furðulegt að ekki hafi komið fram fleiri hugmyndir að byggingum við Austurveg 51-59, en fyrirliggjandi teikning sýnir, sem að mínu mati eru mjög ósmekklegar byggingar og væri mun eðlilegra að þarna risu 2ja og 3ja hæða hús, sem félli vel að íbúðahverfi Mjólkurbúshverfisins.
Set hér inn grein sem ég fékk birta í Dagskránni um þetta málefni.
Hvaða öfl ráða för?
Á föstudaginn 20. apríl sl. áttu íbúðar Mjólkurbúshverfisins fund með bæjarstjóra Árborgar, að beiðni íbúanna, þar sem málefni byggingarinnar að Austurvegi 51-59 voru rædd.Íbúar hverfisins hafa þegar gert athugasemdir við þessa byggingu, sem að okkar mati skaðar hverfið á margan hátt. Á fundinum með bæjarstjóra kom fram að búið væri að lækka bygginguna um eina hæð úr 17 m. í 14 m., en að öðru leyti er byggingin óbreytt. Þessi breyting væri til þess að koma til móts við íbúanna, en að okkar mati breytir þetta ekki miklu.
Á fundinum lágu ekki fyrir teikningar af húsinu, einungis sýnd teikning af skuggavarpi með tveimur dagsetningum. Þarna er um að ræða tvö 5 hæða L laga hús, forljót, sem staðsett eru innarlega í lóðinni, þannig að bílaplan er í suðri. Bílarnir fá sólina, en íbúarnir skuggann. Að mínu mati er ekkert rými fyrir þessar risavöxnu byggingar á þessum stað og það er furðulegt að fulltrúar meirihlutans hafi ekki farið fram á aðrar tillögur að byggingunni lækkun um eina hæð breytir ekki miklu fyrir íbúanna. Þegar þessi hugmynd kom fyrst fram um að byggja fjölbýlishús, sem tengst gæti Grænumörkinni var einungis talað um 3 hæðir, en eftir að aðrir eigendur höfðu eignast þarna byggingaréttinn var ekkert mál að samþykkja 6 hæða byggingar.
Það er einnig furðulegt, hvernig afstaða vinstri grænna hefur breyst, en fyrir kosningarnar sl. vor voru þeir alfarið á móti svona hárri byggingu og voru sammála íbúum hverfisins, að ekkert rými væri fyrir slíka byggingu. Auðvelt virðist vera að selja sínar skoðanir svo mikið er kappið að komast til valda í bæjarfélaginu okkar. Og hvað er með íbúalýðræði Samfylkingarinnar? Miðað við framkvæmdina við Mjólkurbúshverfið er ekkert mark takandi á því lýðræðistali. Greinilegt er einnig, að framsóknarmenn leggja ofurkapp á, að þessi hugmynd verði að veruleika. Bæjarfulltrúar eiga að virða rétt annarra íbúa og ekki er hægt að valta yfir heimili fólks og friðhelgi, eins og gert er núna með þessari samþykkt, að byggja 5 hæða hús með þessu formi.
Ófaglega hefur verið staðað að þessu máli í alla staði, samþykktin kom fyrst fram með ógnar hraða fyrir kosningarnar sl. vor án allrar kynningar fyrir íbúa hverfisins, sem ekki hafa fengið fund með fulltrúum eða bæjarstjóra, nema að beiðni íbúanna. Gömul og gróin hverfi ætti að vera prýði og stolt hvers bæjarfélags og ég harma það, ef það er skoðun bæjarfulltrúa meirihlutans, að aðal áhersla verði lögð á blokkarbyggð, hvar sem hægt er að koma því við. Það er bara gott mál, að einhverjir geti nú grætt á byggingarmagni lóða, sem aðilar eiga, en ekki á kostnað annarra. Bæjarfulltrúar verða að hugsa um heildina og ekki gleyma sér í ákafanum, sem oft skapast fyrir kosningar.
Í Mjólkurbúshverfinu er gott að búa og íbúunum hefur ávallt liðið þar vel, en í rúmt ár hefur ríkt mikil óvissa og vanlíðan meðal fólksins. Lóðarhafi hefur þegar keypt upp öll húsin í Þórsmörkinni, nema 4 og nokkur hús hafa einnig verið keypt í Heiðmörkinni. Hvað skyldi vaka fyrir lóðarhafa í kjölfar þessara kaupa og þarna er sýnilegt, að einhverjir fjársterkir aðilar eru þarna í spilinu.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar sl. föstudag var tillögu fulltrúa sjálfstæðismanna hafnað, um að skipuleggja hverfið í heild sinni. Skipulagsstofnun og skipulagsfræðingur, sem íbúarnir leituðu til hafa sett fram sömu athugasemdir og íbúarnir hafa gert, en ekki er meira tillit tekið til þeirra athugasemda, nema þessi lækkun hússins um 3 metra. Á þessu bygginarsvæði liggur landið einnig hærra og ætti þar af leiðandi að taka tillit til þess. Ég hvet bæjarfulltrúa meirihlutans, að endurskoða sína afstöðu og að gerð verði breyting á þessum tillögum ef þessi tillaga verður að veruleika er hverfinu algjörlega rústað. Forðumst svona skipulagsslys og höldum áfram að gera bæinn okkar vinalegan og góðan til búsetu fyrir alla íbúa.
Esther Óskarsdóttir íbúi í Mjólkurbúshverfinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2007 | 23:25
Líf og kraftur í Vestmannaeyjahöfn
Það er ákaflega gaman að fylgjast með athafnalífinu í kringum Vestmannaeyjahöfn. Í dag var þar heilmikið um að vera, smábátar að koma inn með afla, flutningaskipið Selfoss með gáma og Bergur sigldi inn eftir veiðitúr. Lyftarar þutu fram og aftur með ker full af ís og það var mikið líf. Þrjú ný veiðiskipð eru nýkomin í veiðiflotann og þrjú önnur eru væntanleg á næstunni. Eyjamenn hafa verið vakandi yfir því að ná meiri aflaheimildum til Eyja enda nauðsynlegt að efla þá stóriðju sem fiskvinnslan og útgerðin er í Vestmannaeyjum. Skipalyftan varð fyrir áfalli í vetur en þar er á ferðinni fyrirtæki með 40 störf sem nauðsynlegt er að nái góðri stöðu á ný til að takast á við stærri verkefni en áður. Vestmannaeyjar hafa alla burði til að verða stærsti og öflugasti útgerðarbær í norðurhöfum, setja má Vestmannaeyjum slíkt markmið.
Bloggar | Breytt 29.4.2007 kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2007 | 22:53
Bókasafnið á Eyrarbakka er menningarakkeri
Ég kom á bókasafnið á Eyrarbakka í dag en það fagnar nú 80 ára afmæli sínu. Þetta er bókasafn Ungmennafélags Eyrarbakka og sýnir saga þess hversu sterkar rætur ungmennafélögin eiga í menningarsögu dreifbýlisins. Áður en bókasafn UMF Eyrarbakka kom til voru lestrarfélög við lýði.
Mikill áhugi og metnaður ríkir hjá bókasöfnunum í Árborg og er þar á ferðinni lifandi starf. Bókasafnið á Eyrarbakka stuðlar enn að miklum bóklestri í þorpinu. Þetta bókasafn er menningarakkeri á Bakkanum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2007 | 23:04
Skemmtilegt fimleikamót
Við fórum á fimleikamót Gerplu í Kópavogi í dag til að fylgjast með Andreu Rós keppa. Það var skemmtilegt að fylgjast með þessum litlu telpum framkvæma erfiðar æfingar af mikilli fimi. Lipurð þeirra og liðleiki er ótrúlegur og einbeitnin skín úr andliti þeirra. Auðvitað tekst ekki allt eins og skyldi því hver og einn fær bara eina tilraun. Það var gaman að sjá hvað telpurnar voru duglegar að takast á víð það þegar æfingin gekk ekki alveg upp og þá er gott að hafa góðan þjálfara sér við hlið til að hvetja mann áfram.
Umgjörð mótsins hjá Greplu var glæsileg og gaman að sjá hverju metnaðarfull uppbygging íþróttamannvirkja í Kópavogi skilar. Því miður gleymdist myndavélin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2007 | 22:52
Kúgun
Það er skrýtið að verða fyrir kúgun og finna á eigin skinni þegar fólk er ekki virt viðlits. Hér á ég við heimsókn okkar íbúa Mjólkurbúshverfis til bæjarstjóra þar sem hún tilkynnti það sem meirihluti bæjarstjórnar hafði ákveðið varðandi skipulag hverfisins okkar. Óhætt er að fullyrða að aldrei hefur verið gengið svona fram gegn íbúum á Selfossi af nokkurri sveitarstjórn.
Eftir þennan fund var fólk gráti nær enda mjög sorgleg niðurstaða sem kynnt var. Það hefur geisað stormur í mínum huga síðan á föstudag, stormur sem nauðsynlegt er að hemja svo ekki fari í hann of mikil orka. Í þessum stormi hafa bæjarfulltrúar meirihlutans í Árborg fengið það óþvegið.
Þegar storminn lægir koma gamalkunn heilræði upp í hugann þar sem segir að maður þurfi að gera sér grein fyrir því hverju maður getur breytt og hverju ekki og greina þar á milli. Maður breytir ekki því sem sveitarstjórnarmenn okkar hafa bitið í sig þó það kosti tillitsleysi gagnvart íbúunum, - því fólki hverra hagsmuna þeir eru kjörnir til að gæta. En eitthvað býr hér undir, hvers vegna var ekki hægt að sýna íbúunum tillitssemi?
Einhverstaðar liggur hundurinn grafinn. Sannleikurinn mun koma í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.4.2007 | 16:01
Mikil óvissa hjá íbúum Mjólkurbúshverfis eftir samþykkt bygginga- og skipulagsnefndar
Bæjarstjóri Árborgar setti fréttatilkynningu á heimasíðu sveitarfélagsins eftir hádegi í dag þegar bygginga- og skipulagsnefndin hafði samþykkt tillögu meirihluta bæjarstjórnar um 5 hæða byggingar við Austurveg 51 - 59, ofan í íbúðabyggðina í Mjólkurbúshverfinu. (Sjá hér fyrir neðan) Á fundi nefndarinnar var því hafnað að unnið yrði deiliskipulag af hverfinu í heild til að móta stefnu um hverfið í ljósi þeirra breytinga sem eru í farvatninu. Þessu var hafnað enda ekki á döfinni hjá meirihluta bæjarstjórnar, Framsóknarflokki, Samfylkingu og Vinstri Grænum að gefa íbúum hverfisins neina vissu um framtíðina nema þau ruðningsáhrif sem 5 hæða byggingarnar hafa, alveg eins og þær sem áttu að vera 6 hæðir.
Minnt er á að fulltrúar Vinstri grænna fóru um hverfið fyrir síðustu kosningar og fullvissuðu fólk um að þeir væru algerlega andvígir hugmyndum þáverandi bæjarstjórnar og margir trúðu þeim og núna hafa þeir gengið á bak orða sinna og er trúandi til alls. Það er líka rétt að minna á það að það eru sömu fulltrúar Samfylkingar og Framsóknar sem sitja í meirihluta bæjarstjórnar Árborgar núna og samþykktu eftir flýtimeðferð tillöguna með 6 hæða húsunum. Ákafi Framsóknar hefur alltaf legið fyrir í þessu máli en ekki verið skýrður.
Í fréttatilkynningunni er sagt að meirihluti bæjarstjórnar hafi náð samkomulagi við eiganda lóðarinna um 5 hæða byggingar. Rétt er að benda á að meirihlutinn hefur ekki lyft litlafingri til að kynna íbúum áformin en þeir hafa mátt búa við mikla óvissu um búsetuskilyrði sín í hverfinu. Íbúar hafa þurft að hafa frumkvæði að öllum fundumí þessu máli með fulltrúum meirihlutans. Meirihluti bæjarstjórnar lítur greinileg svo á að lóðarhafinn eigi meiri hagsmuna að gæta en íbúarnir í þessu máli. Þar liggur hundurinn grafinn
Á fundi með ibúum í morgun sagði bæjarstjóri að bæjarfélagið gæti verið skaðabótaskylt gagnvart lóðarhafanum og væntingum hans þar sem skipulagið hefði verið samþykkt á sínum tíma þó það hefði ekki komist í framkvæmd. Henni var bent á að það lægju líka fyrir lögfræðiálit um að bærinn væri ekki skaðabótaskyldur þar sem ekkert skipulag hefði komist á og því hefði lóðarhafinn ekki orðið fyrir neinum skaða nema að væntingar hans um gróða af sölu byggingaréttar hefðu skaðast.
Það eru núna önnur vinnubrögð í kringum skipulag miðbæjarins, þar er keppst við að kalla á hina og þessa til að segja sitt álit. Núverandi meirihluta hefur ekki dottið í hug að kalla til skipulagsfræðing til að gefa sér álit á þessu verklagi sínu og skipulaginu á Av 51 - 59. Nauðsynlegt er fyrir sveitarfélagið að hafa slíkan aðila til að kalla til í álitamálum sem þessum.
Hér kemur svo frétttilkynning bæjarstjóra Árborgar:
Fréttatilkynning frá Sveitarfélaginu Árborg vegna deiliskipulagstillögu fyrir Austurveg 51-59 á SelfossiÁ fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar fyrr í dag var samþykkt að óska eftir því við bæjarstjórn Árborgar að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Austurvegar 51-59 á Selfossi með áorðnum breytingum. Mál þetta hefur lengi verið í afgreiðsluferli innan stjórnsýslu sveitarfélagsins og miklar athugasemdir komið frá íbúum í nágrenni fyrirhugaðra bygginga, ekki síst hvað varðar hæð húsa. Nýverið náðist samkomulag milli núverandi meirihluta bæjarstjórnar Árborgar og eigenda lóðarinnar um að lækka fyrirhugaðar byggingar um eina hæð frá því skipulagið var samþykkt í bæjarstjórn vorið 2006, úr sex hæðum í fimm. Áður höfðu húsin verið lækkuð um a.m.k. 1,5 m frá tillögunni sem auglýst var í janúar 2006 og hafa þannig lækkað samtals um rúma fjóra metra, eru nú rúmlega 14 m. að hæð. Einnig hafa þau verið færð til á lóðarreitnum til að draga úr skuggavarpi fyrir nærliggjandi hús. Til samanburðar má geta þess að húsið við Austurveg 56, þar sem m.a. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga eru með skrifstofur sínar, er tæpir 12,5 m. að hæð og húsið við Grænumörk 2 þar sem eru íbúðir fyrir aldraða er um 13 m. að hæð. Lóðirnar sem um ræðir eru hluti af miðsvæði skv. aðalskipulagi sveitarfélagsins en þar er gert ráð fyrir að byggingar geti verið hærri en á öðrum svæðum í bænum. Við Austurveg 51-59 verða íbúðir fyrir eldra fólk auk þjónusturýmis fyrir aldraða á fyrstu hæð. Á nærliggjandi lóð við Grænumörk 5, sem er að stærstum hluta í eigu sveitarfélagsins, eru íbúðir fyrir aldraða auk þjónusturýmis og aðstöðu til félagsstarfs eldri borgara. Sveitarfélagið áformar að leigja húsnæði í hinu nýja húsi sem rísa mun við Austurveg 51-59, í þeim tilgangi að efla og þróa enn frekar þjónustu við eldri íbúa Árborgar. Tengibygging er áætluð á milli Grænumarkar 5 og Austurvegar 51-59 og eykur það verulega möguleika sveitarfélagsins til uppbyggingar á þjónustu við aldraða á þessu svæði. Meðal annars er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir þjónustumiðstöð og starfsstöð fyrir heimaþjónustu á fyrstu hæð. Með tilkomu bygginganna við Austurveg 51-59 fjölgar búsetukostum fyrir eldra fólk í sveitarfélaginu auk þess sem tækifæri skapast til að auka við þjónustu sveitarfélagsins við þennan aldurshóp. Það hefur ótvíræða kosti að byggja upp enn frekari þjónustu við aldraða á þessu svæði og sveitarfélagið bindur miklar vonir við þá uppbyggingu sem þarna mun fara fram á næstu árum. Þessi ákvörðun breytir ekki þeirri ætlan meirihlutans að komið verði upp húsnæði og þjónustu fyrir aldraða á fleiri stöðum á Selfossi í framtíðinni. Sveitarfélagið Árborg leggur sig fram um að veita eldri borgurum góða þjónustu og vera í fararbroddi sveitarfélaga hvað það varðar.Bæjarstjórinn í Árborg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)