Mikil óvissa hjá íbúum Mjólkurbúshverfis eftir samþykkt bygginga- og skipulagsnefndar

Bæjarstjóri Árborgar setti fréttatilkynningu á heimasíðu sveitarfélagsins eftir hádegi í dag þegar  bygginga- og skipulagsnefndin hafði samþykkt tillögu meirihluta bæjarstjórnar um 5 hæða byggingar við Austurveg 51 - 59, ofan í íbúðabyggðina í Mjólkurbúshverfinu.  (Sjá hér fyrir neðan) Á fundi nefndarinnar var því hafnað að unnið yrði deiliskipulag af hverfinu í heild til að móta stefnu um hverfið í ljósi þeirra breytinga sem eru í farvatninu. Þessu var hafnað enda ekki á döfinni hjá meirihluta bæjarstjórnar, Framsóknarflokki, Samfylkingu og Vinstri Grænum að gefa íbúum hverfisins neina vissu um framtíðina nema þau ruðningsáhrif sem 5 hæða byggingarnar hafa, alveg eins og þær sem áttu að vera 6 hæðir. 

Minnt er á að fulltrúar Vinstri grænna fóru um hverfið fyrir síðustu kosningar og fullvissuðu fólk um að þeir væru algerlega andvígir hugmyndum þáverandi bæjarstjórnar og margir trúðu þeim og núna hafa þeir gengið á bak orða sinna og er trúandi til alls.  Það er líka rétt að minna á það að það eru sömu fulltrúar Samfylkingar og Framsóknar sem sitja í meirihluta bæjarstjórnar Árborgar núna og samþykktu eftir flýtimeðferð tillöguna með 6 hæða húsunum. Ákafi Framsóknar hefur alltaf legið fyrir í þessu máli en ekki verið skýrður.

 Í fréttatilkynningunni er sagt að meirihluti bæjarstjórnar hafi náð samkomulagi við eiganda lóðarinna um 5 hæða byggingar.  Rétt er að benda á að meirihlutinn hefur ekki lyft litlafingri til að kynna íbúum áformin en þeir hafa mátt búa við mikla óvissu um búsetuskilyrði sín í hverfinu.  Íbúar hafa þurft að hafa frumkvæði að öllum fundumí þessu máli með fulltrúum meirihlutans. Meirihluti bæjarstjórnar lítur greinileg svo á að lóðarhafinn eigi meiri hagsmuna að gæta en íbúarnir í þessu máli. Þar liggur hundurinn grafinn

Á fundi með ibúum í morgun sagði bæjarstjóri að bæjarfélagið gæti verið skaðabótaskylt gagnvart lóðarhafanum og væntingum hans þar sem skipulagið hefði verið samþykkt á sínum tíma þó það hefði ekki komist í framkvæmd.  Henni var bent á að það lægju líka fyrir lögfræðiálit um að bærinn væri ekki skaðabótaskyldur þar sem ekkert skipulag hefði komist á og því hefði lóðarhafinn ekki orðið fyrir neinum skaða nema að væntingar hans um gróða af sölu byggingaréttar hefðu skaðast.

Það eru núna önnur vinnubrögð í kringum skipulag miðbæjarins, þar er keppst við að kalla á hina og þessa til að segja sitt álit.  Núverandi meirihluta hefur ekki dottið í hug að kalla til skipulagsfræðing til að gefa sér álit á þessu verklagi sínu og skipulaginu á Av 51 - 59.  Nauðsynlegt er fyrir sveitarfélagið að hafa slíkan aðila til að kalla til í álitamálum sem þessum.

 

Hér kemur svo frétttilkynning bæjarstjóra Árborgar:

Fréttatilkynning frá Sveitarfélaginu Árborg vegna deiliskipulagstillögu fyrir Austurveg 51-59 á SelfossiÁ fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar fyrr í dag var samþykkt að óska eftir því við bæjarstjórn Árborgar að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Austurvegar 51-59 á Selfossi með áorðnum breytingum.  Mál þetta hefur lengi verið í afgreiðsluferli innan stjórnsýslu sveitarfélagsins og miklar athugasemdir komið frá íbúum í nágrenni fyrirhugaðra bygginga, ekki síst hvað varðar hæð húsa.  Nýverið náðist samkomulag milli núverandi meirihluta bæjarstjórnar Árborgar og eigenda lóðarinnar um að lækka fyrirhugaðar byggingar um eina hæð frá því skipulagið var samþykkt í bæjarstjórn vorið 2006, úr sex hæðum í fimm. Áður höfðu húsin verið lækkuð um a.m.k. 1,5 m frá tillögunni sem auglýst var í janúar 2006 og hafa þannig lækkað samtals um rúma fjóra metra, eru nú rúmlega 14 m. að hæð.  Einnig hafa þau verið færð til á lóðarreitnum til að draga úr skuggavarpi fyrir nærliggjandi hús.  Til samanburðar má geta þess að húsið við Austurveg 56, þar sem m.a. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga eru með skrifstofur sínar, er tæpir 12,5 m. að hæð og húsið við Grænumörk 2 þar sem eru íbúðir fyrir aldraða er um 13 m. að hæð.  Lóðirnar sem um ræðir eru hluti af miðsvæði skv. aðalskipulagi sveitarfélagsins en þar er gert ráð fyrir að byggingar geti verið hærri en á öðrum svæðum í bænum. Við Austurveg 51-59 verða íbúðir fyrir eldra fólk auk þjónusturýmis fyrir aldraða á fyrstu hæð.  Á nærliggjandi lóð við Grænumörk 5, sem er að stærstum hluta í eigu sveitarfélagsins, eru íbúðir fyrir aldraða auk þjónusturýmis og aðstöðu til félagsstarfs eldri borgara.  Sveitarfélagið áformar að leigja húsnæði í hinu nýja húsi sem rísa mun við Austurveg 51-59, í þeim tilgangi að efla og þróa enn frekar þjónustu við eldri íbúa Árborgar.  Tengibygging er áætluð á milli Grænumarkar 5 og Austurvegar 51-59 og eykur það verulega möguleika sveitarfélagsins til uppbyggingar á þjónustu við aldraða á þessu svæði. Meðal annars er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir þjónustumiðstöð og starfsstöð fyrir heimaþjónustu á fyrstu hæð.  Með tilkomu bygginganna við Austurveg 51-59 fjölgar búsetukostum fyrir eldra fólk í sveitarfélaginu auk þess sem tækifæri skapast til að auka við þjónustu sveitarfélagsins við þennan aldurshóp.  Það hefur ótvíræða kosti að byggja upp enn frekari þjónustu við aldraða á þessu svæði og sveitarfélagið bindur miklar vonir við þá uppbyggingu sem þarna mun fara fram á næstu árum.  Þessi ákvörðun breytir ekki þeirri ætlan meirihlutans að komið verði upp húsnæði og þjónustu fyrir aldraða á fleiri stöðum á Selfossi í framtíðinni.  Sveitarfélagið Árborg leggur sig fram um að veita eldri borgurum góða þjónustu og vera í fararbroddi sveitarfélaga hvað það varðar. 

Bæjarstjórinn í Árborg 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband