3.6.2007 | 05:39
Fiskmarkaðurinn á Pike Place í Seattle og afmæli Siggu
Við eyddum fyrri hluta dagsins í dag í miðborg Seattle þar sem við heimsóttum fiskmarkaðinn á Pike Place, sem þekktur er fyrir það hversu líflegur hann er og skemmtilegur. Fiskmarkaðurinn eða fiskbúðin, er hluti af mjög stórum markaði í miðborginni sem er gríðarlega vel sóttur en um þessar mundir eru 100 ár síðan hann var stofnaður og margt gert til að halda upp á það.
Ferðin til Seattle var eiginlega farin til þess eins að koma við á þessum markaði en eftir lestur bókarinna Fiskur, Fish, er nauðsynlegt að koma það við eigi maður þess kost. Starfsmenn fiskmarkaðarins eru geysilega líflegir og skemmtilegir. Þeir ákváðu að starfa í skemmtilegustu fiskbúð í heimi og hefur greinilega tekist það mjög vel. Þeir skemmta sér konunglega við vinnuna og skapa mikið líf í kringum sig.
Bókin Fiskur og starfsemi búðarinnar ás amt viðhorfi starfsmannanna, hefur verið notuð sem dæmi um það hversu nauðsynlegt það er fyrir fólk að skapa sér jákvætt viðhorf til vinnunnar sinnar. Það er nefnilega raunin að það er nauðsynlegt að hafa gaman af vinnunni. Fólk getur ekki ráðið því hvernig vinnan er frá degi til dags en það getur ráðið viðhorfi sínu til vinnunnar, vinnufélaganna og viðskiptavinanna. Þetta á ekki bara við um almenna starfsmenn fyrirtækja heldur einnig stjórnendur hvar sem er. Þetta gerðu strákarnir í fiskbúðinni á Pike Place og tókst það vel.
Auðvitað var bókin með í för og starfsmennirnir fengnir til að árita bókina eftir að við höfðum horft á þá um stund afgreiða fólk og skemmta því um leið. Þegar þeir voru beðnir um áritun hrópuðu þeir hver í kapp við annan - Skrifa í bókina, skrifa í bókina - og gerðu skemmtiatriði úr þessu.
Allt í einu öskruðu nokkrar konur upp eins og eitthvað hræðilegt hefði komið fyrir en þá hafði einn starfsmannanna kippt í snæri og um leið glennti stór fiskur upp ginið í fiskborðinu þar sem fólk hallaði sér yfir ísaðan fiskinn til að skoða úrvalið.
Þarna í miðborg Seattle skildu leiðir með okkur og Mary Hoover og dóttur hennar Kari en maður hennar, Jim, kvaddi okkur á hótelinu í morgun, með þeim orðum að þau kæmu til Íslands eftir 5 ár - hver veit.
Svo var ekið sem leið lá út úr Seattle og USA og komið til Kanada á hótel við flugvöllinn í Vancouver en þaðan fljúgumvið á morgun, 3. júní, til Montreal. Við bíðum spennt eftir því hvernig veðrið verður í Montreal en hingað til höfum við fengið sól með 22ja - 26 stiga hita. Það er greinilegt að stórveldið USA er smámunasamara við landamæravörslu sína en Kanadamenn. Bandaríkjamenn vilja fá fingraför og mynd af manni og yfirlýsingar á blaði en Kanadamennirnir spyrja einfaldra spurninga um farangurinn. En allt gekk þetta vel og allir landamæraverðir kurteisir og þægilegir.
Í kvöld bauð svo Sigga Rós í mat á skemmtilegu veitingahúsi í nágrenni hótelsins en hún á afmæli í dag 2. júní. Þarna nutum góðs matar í notalegu umhverfi með frábærum ferðafélögum. Og auðvitað var stelpan látin blása á afmæliskertið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2007 | 16:16
Heimsóttum Geimnálina í Seattle
Komum til Seattle í gær og fórum þá beina leið í miðbæinn og upp í Space Needle til að sjá yfir borgina. Umferðin í þessari borg er engu lík og mjög þung á köflum. Í dag ætlum við í miðbæinn og á hinn fræga Fiskmarkað á Pike Place sem er 100 ára um þessar mundir.
Sigga Rós á afmæli í dag og fékk afmæliskoss. Mary, Jim og Kari hafa fylgt okkur eftir en í dag skilja leiðir og við leggjum af stað til Vancouver eftir hádegið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2007 | 03:14
Útskrift hjá Hjalta í glampandi sól og blíðu
Það var mikill hátíðarbragur á háskólatorginu framan við hátíðarsal UBC háskólans í dag þegar við komum til útskriftarinnar hjá Hjalta þar sem hann útskrifaðist sem Master of Engineering in Project and Construction Management. Þessa dagana rekur hver útskriftin aðra og fjöldi fólks var á torginu þegar við komum, nýútskrifaðir nemar og aðstandendur þeirra.
Hjalti gekk í skrúðgöngu verkfræðinema, meistaranema og verðandi prófessora, allt samkvæmt hefðinni, með miklum hátíðarbrag enda um að ræða einstakan viðburð hjá hverjum og einum að ljúka námsáfanga og að ná því markmiði sem sett hefur verið. Fremstir fóru verðandi prófessorar, þá komu meistaranámsnemendur og loks almennir verkfræðinemar. Meistaranemar og prófessorar fengu sæti á sviðinu fyrir aftan stjórnendur háskólans og lektora því gráða þeirra var skör hærri en hinna. Síðan gengu stjórnendur í salinn og einn þeirra hélt á valdatákni skólans The Mace sem táknar sjálfstæði og vald háskólans og forseta hans.
Hver og einn nemenda var kallaður upp og fengu allir sitt klapp frá áhorfendum. Forseti skólans Alan McEachern, tók í hönd hvers og eins og sagði ''I admit you'' og nefndi nafn hans. ''Our greatest responsibility as educators is to provide you with the tools you need to be successful in a complex, competitive and challenging world. The education you have received at UBC is the best any university can offer. It forms the foundation upon which you will build your future achivements,'' sagði hann meðal annars þegar hann ávarpaði útskriftarhópinn.
Einn útskriftarnema ávarpaði samkomuna, ung kona sem flutti snjalla ræðu þar sem hún lýsti hversu lærdómsríkt það væri að nema við skólann og ástunda þar mikla hópvinnu sem skapaði góð vinatengsl sem myndu endast ævilangt.
Það er líka nærtækt á svona stundu hversu mikilvægt það er fyrir hvern og einn að afla sér menntunar og skapa sér vettvang fyrir lífið. ''Það tekur enginn menntunina frá manni,'' sagði frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti í einu af sínum góðu ávörpum. Þessi orð eiga alltaf við og mikilvægt að halda á lofti gagnvart ungu fólki.
''As graduates of the University of British Colombia, you have a unique opportunity to turn your hard-earned expertice and knowledge to good use, to become involved in your society, and to offer your ideas and solutions with the confidence that tey will be heard and respected,'' sagði Stephen Tooper rektor UBC háskólans meðal annars þegar hann ávarpaði nemendurna og hvatti þá til góðra verka í þágu samfélagsins og mannkyns. Hann hvatti hvern og einn til að vera vel á verði gagnvart öllum þáttum sem gætu ógnað mannkyninu.
Þetta var sannarlega dásamlegur dagur og yndisleg upplifun að vera viðstaddur þessa athöfn og finna hvað þau bæði, Hjalti Jón og Sigga Rós, eru ánægð með þennan áfanga og tilbúin að takast á við þau verkefni sem bíða þeirra.
Það var sannarlega smitandi hamingjukraftur á háskólatorginu þegar fjölskyldurnar fögnuðu sínu fólki og hvarvetna gengu hamingjuóskir og faðmlög, myndatökur og allir brosandi. Auðvitað var tekin mynd af Hjalta með forseta UBC og þeim sem bar frelsistáknið Mace. Að sjálfsögðu var Hjalti myndaður í bak og fyrir á torginu, með kínverskum skólafélaga, forseta UBC og Mace beranum, prófessornum sínum og okkur hinum.
Síðan nutum við veitinga í boði skólans í tjaldi á torginu, fengum kaffi og súkkulaðibitakökur. Að lokinni athöfninni héldum við heim á leið og nutum þess að vera til, skruppum á ströndina og létum sólina baka okkur stutta stund. Síðan snæddum við íslenskt lambalæri og skáluðum fyrir frábærum áfanga þeirra hjónakornanna.
Góðum degi var lokið og framundan ferðalag á morgun til Vancouver Island sem fyrsta áfanga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.5.2007 | 18:02
Útskrift hjá Hjalta í dag
Hjalti útskrifast í dag og búum við okkur undir að mæta í Chan Centre sem er hátíðarsalur UBC.
Hægt er að fylgjast með útskriftinni á þessari slóð
Útskriftin er kl 13,30 að kanadískum tíma sem er 20,30 að íslenskum tíma.
Hér er veðrið með besta móti sól, logn og 20 stiga hiti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.5.2007 | 03:33
Kaffihúsaskreppur í miðborgina
Undir hádegi í dag, þegar ungu hjónin höfðu gengið frá því helsta í stóru töskurnar fyrir brottflutninginn úr námsmannaíbúðinni var skroppið í miðbæinn til að kíkja á mannlífið og kaffihús. Það er dálítið öðruvísi að skreppa á kaffihús í stórborg með 2 milljónir íbúa, ferðin tekur tíma sem gera verður ráð fyrir. Svo þarf að finna bílastæði á góðum stað gjarnan tveimur hæðum undir yfirborði jarðar.
Allt tekur þetta tíma og á meðan ekið er um götur borgarinnar er gaman að gefa umhverfinu auga í gegnum myndavélina. Sama má segja þegar gengið er um miðborgina og hvert mótívið af öðru blasir við. Mannlífið og háhýsin eru nokkuð sem er ekki að þvælast fyrir manni á hverjum degi og þess vegna er gjarnan smellt af. Það er svo aftur einkennandi hérna að þegar komið er út fyrir miðborgina þá hverfa háhýsin og við taka einnar til tveggja hæða hús.
Mannlíf í Vancouver er litríkt, þar má sjá fólk af ýmsum uppruna og greinilegt er að hinn fjölþjóðlegi blær er í mikilli sátt í borginni. Kínverska hverfið er á sínum stað og einnig það indverska þar sem verslanir eru og menningarlegt yfirbragð fólks af þessum uppruna. Þá má sjá þess merki að undirbúningur er hafinn fyrir Vetrarolympíuleikana 2010 sem verða í Vancouver. Mannvirki eru í byggingu og borgaryfirvöld undirbúa það að borgin verði í sviðsljósi alheimsins á meðan á leikunum stendur.
Við kíktum á kaffihús, fengum okkur bita á veitingastað í gömlu pakkhúsahverfi þar sem pakkhúsin hafa verið innréttuð sem veitingahús og eru mjög vinsæl. Síðan var rölt um og myndavélin fékk að gæla við umhverfið og háhýsin.
Auðvitað var bætt við einni tösku svona að íslenskum sið áður en farið er heim á leið en heimferð okkar frá Vancouver hefst 30. maí með ferð til Victoríu á Vancouver Island þar sem gist verður í tvær nætur, þaðan förum við til Seattle og svo til baka til Vancouver 2. júní í flug yfir á austurströndina til Montreal.
Við lukum svo miðbæjarferðinni með ískaffi á Starbucks kaffíhúsi þar sem við sátum í sólinni en á dyrunum var tónlistarauglýsing um Paul Mc Cartney.
Á morgun er svo útskrift hjá Hjalta. Hann skellti sér til rakarans síns sem er af arabískum uppruna, hér í næsta nágrenni og fékk brautskráningarklippinguna. Á meðan hlupu mæðgurnar um nágrennið og kíktu í búðarglugga en það er ekki auðvelt að hlaupa yfir götu hér í bæ og betra að nota gangbrautirnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2007 | 05:30
Gönguferð í Stanley Park og heimsókn hjá góðu fólki
Deginum eyddum við í gönguferð um Stanley Park sem er býsna stór garður skammt frá miðborg Vancouver. Þetta er vinsæll garður um helgar og oft eru þar heilmiklar uppákomur. Þarna kemur fólk með börnin og eyðir deginum saman. Hægt er að ganga með ströndinni og er þar á ferð hjólandi og gangandi fólk.
Garðurinn er kyrrlátur og auðvelt er að virða fyrir sér útsýnið yfir borgina. Lions Gate Bridge er stór hengibrú sem tengir borgarhluta saman og var reist af eiganda garðsins á sínum tíma. Þarna gengum við í hátt í þrjá klukkutíma með smá ísstoppi. Garðurinn fór illa í miklum stormi í vetur og sér verulega á honum eftir það.
Í kvöld var okkur síðan boðið til fjölskyldunnar sem Sigga passaði fyrir, Tom og Köru sem eiga tvö börn, Skye 3ja ára og Jonah 7 ára. Þar áttum við góða kvöldstund með þeim og fræddumst um aðstæður fólks í stórborginni.
Þau búa í kyrrlátri götu, í gömlu húsi sem þau leigja. Hann er kennari í High School og hún vinnur að doktorsritgerð í menntunarfræðum, yfirvegað fólk sem hugsar vel um aðstæður fjölskyldunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2007 | 01:18
Bíltúr um Hastings hverfið í Vancouver
Eftir skógargöngu og góðan japanskan málsverð í háskólahverfinu fórum við í bíltúr um Hastings hverfið sem er skammt frá Gastown og miðbænum.
Það eru skörp skil milli þessa hverfis og fínheitanna í kringum háhýsin í miðborginni. Í þessu hverfi safnast saman fíklar og útigangsfólk og býr greinilega í gömlum og niðurníddum húsum sem nóg er af.
Þarna má sjá sjúskuð hótel í eigu fíkniefnasala með strigapoka fyrir gluggum og fyrir utan er fólk sem háð er hinni daglegu neyslu eiturlyfja. Borgin beitir sér fyrir því að halda fólkinu á ákveðnu svæði. Þó maður sjái aðeins yfirborðið út um bílgluggann er auðvelt að gera sér grein fyrir þeirri miklu eymd sem fólkið býr við og ræður ekki við að koma sér út úr.
Vancouver er stór borg með ríflega 2 milljónir íbúa og því er flóra mannslífsins mjög fjölbreytileg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2007 | 00:59
Nýr samgönguráðherra fékk góðar kveðjur og blóm
Hannes Kristmundsson baráttumaður í Hveragerði heimsótti skrifstofu samgönguráðherra í vikunni og færði honum blóm og kveðjur frá sér og konu sinni og líka frá Vinum Hellisheiðar. Þetta gerðum við Hannes til að minna á hið stóra fyrirliggjandi verkefni að tvöfalda og lýsa Suðurlandsveg milli Reykjavíkur og Selfoss, helst í einkaframkvæmd hjá Sjóvá. Við minnum líka á að mikilvægt er að samgönguyfirvöld og almenningur vinni saman að umferðarmálum. Við erum tilbúnir og teljum að allur almenningur sé það einnig.
Ég komst ekki með Hannesi þar sem ég er nú í Kanada en ég læt hér fylgja mynd af kanadískum vegi og að sjálfsögðu tvöföldum. Hér eru vegir góðir og áhersla á öryggi. Umferðarmenning er líka góð og lítið um svíningar.
Það má ekkert hika með tvöföldun Suðurlandsvegar og svo þarf líka að halda áfram hvatningu til ökumanna um öruggan akstur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2007 | 05:28
Á Grouse Mountain í útsýnisferð
Fyrir ofan Vancouver gnæfir Grouse Mountain tindurinn sem er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Farið er upp á fjallið í kláf en það er 1100 metra hátt. Þarna uppi er gott útsýni, veitingastaður og svo skemmtidagskrá með skógarhöggsmönnum að sýna listir sínar og svo ránfuglasýning.
Einnig má sjá birni og fyrir neðan fjallið eru síðan úlfar í girðingu. Svo eru þarna höggmyndir úr tré sem sýna menningu svæðisins. Yfir vetrartímann er þetta gott skíðasvæði. Þarna áttum við góðan dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2007 | 05:04
Andstæður í háhýsamiðborg Vancouver
Þegar farið er um miðborg Vancouver þar sem hvert háhýsið tekur við af öðru má sjá ýmsar andstæður þar sem lægri hús hafa verið látin standa áfram. Yfir gnæfir háhýsið í öllu sínu veldi en litla húsið kúrir áfram.
Skammt frá er annað hús sem er eins og glas á fæti, húsið stendur á súlu og sá hluti hússins sem stendur út fyrir súluna er borinn uppi af burðarvirki efst í þakinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)