Megn óánægja íbúa Mjólkurbúshverfis með 5 hæða byggingar við Austurveg

Bæjarstjóri átti, ásamt bæjarritara,  fund með íbúum Mjólkurbúshverfis, sem gert hafa athugasemdir við skipulag lóðanna Av. 51 - 59,  í morgun kl 9,00 - 10,00 þar sem hún kynnti íbúum að tillaga um byggingu 5 hæða húsa  með inndreginni efstu hæð á byggingarreitunum við Austurveg yrði  tekin fyrir í skipulags- og bygginganefnd kl 12,00 í dag.  Sagði hún að byggingarnar hefðu verið lækkaðar til að koma til móts við athugasemdir íbúa.  Engin teikning af  skipulagi lóðanna var sýnd á fundinum og þótti íbúum það miður og sýnt að fundurinn væri  haldinn til málamynda en ekki til að fá fram  hugmyndir til að vinna með.
Á fundinum létu íbúar í ljós megna óánægju með alla málsmeðferð vegna deiliskipulags lóðanna við Austurveginn. Í öllu ferli málsins  sem tekið hefur rúmlega eitt ár hafa bæjaryfirvöld aldrei haft frumkvæði að því að boða íbúa til kynningarfundar um breytingu á deiliskipulagi Mjólkurbúshverfisins.  Hins vegar hefur bæjarstjórn fundað ítrekað með lóðarhafanum sem sækir það stíft að fá að byggja á lóðunum. Rétt er að taka fram að bæjarstjóri  átti sæti í þeirri bæjarstjórn sem vildi að á lóðunum risu 6 hæða hús og lét liggja á milli hluta að íbúarnir væru sniðgengnir.
Vakin var athygli bæjarstjóra á því að fyrir hendi er deiliskipulag af Mjólkurbúshverfinu og að Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur hefði að ósk íbúa sett fram álit á því hvernig standa ætti að breytingum á deiliskipulagi. Hann bendir á að líta þurfi til heildarinnar sem hverfið myndar og sýna breytinguna með tilliti til þeirra húsa sem eru fyrir hendi.  Þetta segir hann í ljósi þess að í skipulagsreglugerð nr 400/1988 segir: "Við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skal þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar."  Þessa hefur bæjarstjórn ekki gætt og ekki heldur skipulags- og bygginganefnd, að minnsta kosti ekki til þessa. Spurning hvað hún gerir núna klukkan 12:00.
Það kom glögglega fram hjá íbúum á fundinum með bæjarstjóra að það skiptir engu máli hvort hæð húsanna er 5 hæðir eða 6 hæðir áhrifin eru þau sömu. 5 hæða hús er 14 metra hátt og stendur á hæsta punkti í hverfinu.  Húsið mun standa 15 metra frá stofuglugga næsta húss. Bæjarstjóri hafði ekki skoðun á því  atriði.  Hún sagði það ekki "ásættanlegt" að taka upp skipulag hverfisins í heild, hvað svo sem það þýðir. Hún hafði engin svör við því hvernig umferðarathugun hefði komið út og gaf ekki ákveðin svör um að hún hefði verið gerð.
Það kom skýrt fram í máli bæjarstjóra að málið færi til skipulagsnefndar í dag, síðan til bæjarráðs og svo til umsagnar hjá Skipulagsstofnun. Síðan sagði hún að gert væri ráð fyrir því að framkvæmdir hæfust í sumar.  Hin nýja tillaga yrði ekki sett í auglýsingaferli eins og um nýja tillögu væri að ræða. Miðað við það sem á undan er gengið má gera ráð fyrir að bæjarstjórn staðfesti  þennan gjörning á sínum, sennilega 2. maí.
Í lok fundar lýstu íbúar því hvaða áhrif þetta mál hefði haft á búsetugæðin í hverfinu frá því bæjaryfirvöld byrjuðu að valta yfir íbúana með gerræði sínu fyrir rúmu ári.  Í máli þeirra kom fram að þeir búa við mikla óvissu og nokkrir hafa þegar selt eignir sínar lóðarhafanum að Austurvegi 51 - 59 sem hefur verið viljugur að kaupa þær.  Engin vissa er komin í málið gagnvart íbúunum sem líður ekki vel undir framgöngu meirihluta bæjarstjórnar gagnvart þeim en bæjarstjórnin, meirihluti hennar, hamast við að koma til móts við verktakann og hans áform en lætur hagsmuni íbúanna í hverfinu lönd og leið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér er átt við meirihluta bæjarstjórnar. Ég minni á að fyrrverandi meirihluti ,,sprakk" vegna þessa máls þar sem fulltrúar D-lista sættu sig ekki við skipulagstillöguna eða vinnubrögðin.

Þórunn Jóna (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband